Hvað eru Glucosamine og Chondroitin?

Spurning:

Til hvers eru lyfin glucosamine og Chondroitin notuð?

Svar:

Í dag er orðið nokkuð vinsælt að nota glucosamine og chondroitin við slitgigt og öðrum bólgusjúkdómum í liðum ásamt hefðbundinni lyfjameðferð. Þessi efni eru ekki skráð sem lyf en hægt er að kaupa þau án lyfseðils í apótekum og e.t.v. víðar.

Slitgigt er langvarandi bólgusjúkdómur í liðum þar sem bólgan skemmir og eyðir upp brjóski sem er á beinaendum í liðamótum. Markmið meðferðar við slitgigt er því að stöðva bólgumyndunina og uppræta liðverki. Hingað til hefur meðferð við gigtsjúkdómum einkum verið að gefa ei-stera-bólgueyðandi lyf (NSAID), bólgueyðandi stera eða sérhæfð bólgueyðandi lyf. Öll þessi lyf hafa, eða geta haft, erfiðar aukaverkanir þegar þau eru notuð sem langtímameðferð við gigt og því er reynt að leita leiða til að draga úr gjöf slíkra lyfja eða gefa lyf/efni sem draga úr hættu á þessum aukaverkunum.

Hvað glucosamine og chondroitin varðar, þá er talið að megin verkun efnannafelist í að hefta brjóskeyðingu og örva brjóskmyndun í skemmdum liðum. Út frá glucosamine eru búin til glycosaminoglycön sem eru mikilvæg efni í brjóski en chondroitin er eiginlegt brjóskefni. Sumar rannsóknir hafa bent til að gjöf þessara efna dragi smám saman úr einkennum gigtar og dragi úr þörfinni fyrir klassískum bólgueyðandi lyfjum. Hinsvegar, áður en en hægt er að staðfesta þessa gangsemi efnanna, þá þurfa að liggja fyrir mun betri sannanir á virkni og verkun þessara efna.

Kveðja,
Torfi Rafn Halldórsson, lyfjafræðingur