Hvað er tvíburabróðir?

Spurning:

Ég fékk sýkingu í svæðið rétt fyrir ofan rófubeinið og það fylgja þessu mikil óþægindi, s.s. við að sitja. Ég var settur á sýklalyf af heimilislækni sem kallaði þetta tvíburabróðir. Hvað er tvíburabróðir?

Svar:

Leiðinlegt að heyra að þú ert haldin þessum hvimleiða kvilla, sem þó er með öllu hættulaus en oft getur tekið tíma að komast fyrir. Tvíburabróðir myndast á spjaldhryggssvæðinu, oftast um 2 cm fyrir ofan endaþarmsopið. Þar er oft til staðar svolítil dæld sem veldur engum einkennum fyrr en sýking verður. Ekki er að fullu vitað hvað það er nákvæmlega sem gerist, hvort um leifar frá fósturlífi, inngróning á líkamshárum eða sýkingu í hársekk er að ræða, en einkenni koma fram þegar sýking verður í dældinni. Oft myndast þá holrúm sem fyllist af hári, húðleifum og greftri sem þrýstir á aðliggjandi vefi og veldur það miklum óþægindum, þannig að óbærilegt getur verið að setjast niður. Sýklalyf geta ráðið bót á húðsýkingunni en til að koma í veg fyrir vandamálið er nauðsynlegt að hreinsa upp holrúmið. Til að fá frekari upplýsingar um efnið langar mig að benda þér á skjal um tvíburabróðir á vefnum hjá okkur.

Gangi þér vel,

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir