Húð sem er að skrælna

Heil og sæl.
Skyndilega kringum síðustu áramót fór að bera á útbrotum á bakinu á mér sem ég réði ekki við. Fór til húðsjúkdómalæknis og fékk sterakrem sem virðist ekkert virka. Ég er oft viðþolslaus af kláða, húðin á búk og handleggjum öll í klæjandi sárum. Nota bara Neutral þvottaefni eða Milt fyrir barnið.
Dettur ykkur eitthvað í hug? Ég hef notað vaselín, Penaten, Krftaverk frá Purity Herbs. Djöflast á húðinni með nuddi daglega til að auka blóðstreymi, Rakakrem á allan kroppinn en ekkert gengur.
Er eitthvað sem ég bet borðað, getur þetta verið efnaskortur?
Með von um skjót svör.
Kveðja

Sæl/sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Af því að dæma sem þú skrifar ertu mögulega að gera of mikið! Ekki nudda og djöflast á húðinni daglega, það ertir  hana bara meira. Notaðu rakakrem og sólin er stundum til gagns en þá þarf að gæta vel að sólarvörn. Best er að koma raka í húðina með því að drekka vel af vatni daglega (ca 2 lítra á dag) og hlífa henni við mikilli sápu og sífelldum þvotti og áreiti.

Fæðuóþol sem þú ert að velta fyrir sér myndi valda versnun í húðinni ef það er eitthvað í mataræði sem þú þolir ekki og borðar og um að sama skapi myndi húðin skána ef þú hættir að borða það. Þú getur prufað að taka eitt og eitt út úr mataræðinu eins og hnetur og fræ, sítrusávextir, laukur eða mjólkurmatur. Ekki taka allt í einu, þá veistu ekki hvað af þessu er orsakavaldurinn.

Ef þú lagast ekki skaltu ráðfæra þig aftur við húðsjúkdómalækninn.

Gangi þér vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur