Hreyfiþroski dóttur minnar

Spurning:

Ég á 11 mánaða stelpu sem er ekki farin að velta sér eða sitja og ég hef svolitlar áhyggjur af henni. Er þetta eðlilegt? Hún er heldur ekki komin með neinar tennur.

Svar:

Sæl.

Ég verð að vera þér sammála um að þetta er svona í hægari kantinum varðandi hreyfiþroskann. Talið er eðlilegt að börn fari að velta sér svona um 4 til 7 mánaða aldurinn og séu farin að sitja óstudd 6 til 9 mánaða. Þó er einstaklingsmunur á þessu og börn taka þroskann út á mismunandi tímum. Mér fyndist réttast hjá þér að fara með stelpuna til heimilislæknisins ykkar eða barnalæknis til að greina hvort eitthvað geti verið að. Hvað varðar tanntökuna er ekkert óeðlilegt við að taka tennur um eða eftir eins árs aldurinn. Því hefur verið fleygt að síðbúnar tennur séu sterkari en þær sem koma snemma (þótt ég hafi nú ekki séð neinar staðgóðar heimildir um það) svo þar getur þú verið alveg róleg.

Gangi ykkur allt í haginn,
Dagný Zoega, ljósmóðir