Högg í höfði.

Þannig er að ég hef fengið mjög kröftug högg aftanvert í höfðinu þegar ég er sofandi hendist ég til í rúmminu og glað vakna við þetta. Þetta stafar ekki af utanað komandi aðstæðum. En tilfinningin er eins og það sé einhver að berja mig í höfuðið mjög kröftuglega. Það fylgir þessu enginn verkur af neinu tagi. Hvað getur þetta verið og af hverju stafar þetta?

Komdu sæl/l og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Höfuðverkur í svefni getur átt sér margar orsakir.  Þær geta verið í vöðvum eða beinum á hálsi og höfði, æðum, kinnholum, tönnum, kjálkaliðum, eyrum eða augum.  Mismunandi tegundir höfuðverkja eru til dæmis mígreni, spennuhöfuðverkur og klasahöfuðverkur.

Spennuhöfuðverkur getur orsakast af vöðvaspennu í hálsi og hnakka og lagast oftast við það að slaka á. Spennuhöfuðverkur getur verið í hnakka, í enni, um allt höfuðið eða eins og þrýstingsverkur.

Mígreni er skilgreint sem verkjaköst sem geta staðið yfir í 4-72 klukkustundir og þeim getur fylgt ljósfælni og hugsanlega ógleði og/eða uppköst. Verkurinn getur verið staðsettur öðru hvoru megin á höfðinu eða um allt höfuðið og getur líka færst til. Slíkur höfuðverkur er oftast sár, stöðugur eða með æðaslætti.

Klasahöfuðverkur er verkur í auga eða gagnauga sem getur komið í 15-80 mínútur og getur komið nokkrum sinnum á dag.

Allar þessar tegundir höfuðverkja geta komið að nóttu til og vakið þig eða verið til staðar þegar þú vaknar.

Morgunhöfuðverkur er stundum fylgifiskur þunglyndis en getur einnig verið hluti fráhvarfseinkenna koffíns, verkjalyfja eða annara efna. Þeir sem gnísta tönnum í svefni geta líka vaknað með höfuðverk sem orsakast af spennu í vöðvum og eymslum í kjálkaliðum. Í einstaka tilvikum geta alvarlegri sjúkdómar verið orsök morgunhöfuðverkja og má þar nefna til dæmis háan blóðþrýsting og kæfisvefn.

Ef þetta er að koma ítrekað fyrir og engar augljósar skýringar finnast ættir þú að skoða vel svefnvenjur þínar og ræða þetta við þinn heimilislækni.