Hnúður í brjósti

Sæl,

Hvernig ber maður sig að ef heilsugæsluæknir sendir tilvísun suður (bý á Akureyri)á Krabbameinsfélagið vegna hnúðar sem fannst í brjósti? Krabbameinsfélagið er í sumarleyfi og tekur bara akút tilfelli. Ég er hrædd um að andleg heilsa mín verði ekki upp á marga fiska ef ég þarf að bíða fram í miðjan ágúst til að komast að.
Ég geri mér grein fyrir því að þetta þarf ekki að vera krabbamein en það væri svo gott að fá staðfestingu á því svo maður hætti að gera sér lífið óþarflega leitt með leiðindahugsunum. Þetta bitnar líka á fjölskyldunni.
Getið þið ráðlagt mér einhverja leið?

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þetta er alls ekki gott ástand en samkvæmt nýlegum fréttum er ekki lengur starfandi röntgenlæknir á Akureyri sem sérhæfir sig á þessu sviði og Leitarstöð Krabbameinsfélagsins er nú eini staðurinn á landinu sem sinnir þessari þjónustu. Ég skil fyirspurn þína þannig að heilsugæslulæknirinn meti þennan hnút í brjóstinu þínu ekki sem akút tilfelli en eðlilega ertu hrædd þar til þú færð staðfest að þetta sé í lagi. Ég sé ekki í hendi mér aðra lausn fyrir þig en að bíða eftir að Leitarstöðin opni aftur eftir sumarfrí. Það er betra fyrir þig að fá skoðun þar sem sérþekkingin og reynslan er til staðar. Ef þú ert með bólgu/þrota eða óþægindi í brjóstinu (eins og þú nefnir í öðrum pósti) skaltu heyra í heimilislækninum þínum og biðja hann um að ráðleggja þér með það. Mögulega er um einhverja sýkingu að ræða sem þarfnast meðferðar.

Gangi þér vel