Hjarstláttur í höfði

Hæhæ.

Ég er búin að vera með núna í nokkra mánuði, kannski 4-5 mánuði, svo mikinn hjartslátt í höfðinu. Fyrst var þetta bara þegar ég lagðist niður á kvöldin en núna er þetta orðið alltaf þegar ég slaka á og gef þessu gaum. Það er enginn höfuðverkur með þessu. Ég finn bara vel fyrir slættinum í höfðinu og heyri svona „whoosh“ hljóð.
Ég er hraust, hreyfi mig og blóðþrýstingurinn er ekki hár.
Ég er orðin frekar þreytt á þessu eftir svona langan tíma, en er þetta eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af?

Takk, takk

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Ef búið er að útiloka að þessi einkenni tengist blóðþrýstingi eða blóðrás ráðlegg ég þér að skoða hvort þú getir verið komin með eyrnasuð (tinnitus) en það getur lýst sér sem tónn, suð, niður eða sláttur í eyranum. Það er einmitt einkennandi fyrir eyrnasuð að það er mest áberandi eða truflandi þegar lagst er á koddann á kvöldin eða við slökun. Eyrnasuð getur tengst byrjandi heyrnarskerðingu sem oft tengist hávaðamengun en einnig geta verið aðrar orsakir. Ég ráðlegg þér að panta tíma hjá háls, nef og eyrnalækni og biðja hann um að skoða þetta með þér. Hér eru upplýsingar frá heyrnar og talmeinastöðinni um eyrnasuð sem þú getur skoðað og kannski áttað þig betur á því hvort að þetta passi við þín einkenni.

Önnur möguleg skýring á þessum einkennum er vöðvabólga en þá mundi ég halda að höfuðverkur væri líka til staðar en það þarf samt ekki endilega að vera.

Gangi þér vel