Herpes II og snyrtivörur

Ég var að greinast með Herpes (ég fékk á kynfæri og kærastinn minn síðar í munn og á varir og ég fékk svo eina litla í munnvikið). Get ég hafa smitað systur mína með því að hún notaði varalitinn minn (sem ég setti ekki beint á frunsuna) eða með því að ég notaði púður hjá henni (sem ég setti ekki beint á frunsuna)?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Vessinn sem kemur úr frunsunum í upphafi sýkingar inniheldur veirur og getur smitað, hvort sem er annan stað á sama einstaklingi eða annan einstakling. Það er því mikilvægt að sýna varúð og hreinlæti þegar sjúkdómurinn er á þessu stigi. Veiran smitast aðallega þegar sár eða sáravökvi snertir slímhúð kynfæra, endaþarms, augna, vara eða munns. Smit getur einnig átt sér stað ef maður fær sýktan sáravökva á hendurnar og snertir síðan eigin slímhúð eða slímhúð annarra. Það er alveg möguleiki að smit berist á milli með snyrtivörum og þess vegna er ekki ráðlegt að deila ákveðnum snyrtivörum með öðrum og á það sérstaklega við um maskara og varalit/gloss. Svarið er því að það er alveg möguleiki á að þú hafir smitað systur þína en mjög lítill samt.

Gangi þér vel