Herpes blóðrannsóknir

Góðan daginn,
Ég fór í blóðprufur fyrir herpes. Hafði beðið um að fara í próf fyrir herpes 2 (s.s. kynfæra herpes) einungis þar sem ég veit að ég hef fengið frunsu á varirnar.
Það sem kom út úr þessum blóðprufum var

Anti-HSV-I/II IGG present
Anti-HSV-I/II -IGM absent

Nú skil ég ekki neitt í þessum niðurstöðum. Mér sýnist að það hafi verið prófað fyrir báðum týpum af herpes í einu og því varpi niðurstöðurnar engu ljósi á herpes 2 sérstaklega. En kannski hef ég rangt fyrir mér.
Gætuð þið útskýrt fyrir mér hvað þessar niðurstöður þýða?

Með bestu kveðju

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Samkvæmt þessu svari  hafa mælst mótefni (IGG) fyrir herpes I og II hjá þér en ekki mótefni IGM. Við sýkingu myndast fyrst HSV (herpes)IGM mótefni sem eru  í blóði í einhverjar vikur eftir smit en hverfa síðan. Eftir það myndast mótefnin HSV IGG sem eru varanleg og finnast alltaf í litlu magni í blóði eftir smit.

Ég mæli með að þú talir við þinn heimilislækni um þessar niðurstöður og fáir nánari útskýringar á þeim.

Gangi þér vel.