Heimavinnandi og þarf að léttast

Spurning:

Sæl Ágústa.

Ég er heimavinnandi með ársgamalt barn. Ég reyni alltaf að taka þátt í leikfiminni sem þú ert með í sjónvarpinu á morgnana en stundum er það erfitt því stelpan mín flækist alltaf fyrir þegar kemur að því að gera æfingarnar á gólfinu. Þá vill hún príla uppá mér og ég næ þá ekki öllum æfingunum. Mér finnst æfingaprógrammið einnig of stutt. Ég er rétt farin að svitna þegar þessu er lokið. Er þetta virkilega næg líkamsþjálfun á dag?

Ég hef einnig notast við myndbönd með æfingaprógrömmum og langaði til að spyrja þig hvort ég eigi að vera alveg á fullu og kannski fá vöðva og lyfta eða að gera æfingarnar hægt og lengi. Sem sagt á maður að fá vöðva fyrst svo að maður brenni meiru eða brenna eingöngu? Ég er ennþá að bera öll aukakílóin síðan ég fæddi stúlkuna mína, alls 30 kg sem er mikið að bera. Mér finnst dýrt að æfa í líkamsræktarstöð og hef ekki efni á því þótt að mig langi. Ertu til í að fræða mig aðeins um þetta allt og aðallega hvort ég eigi líka að notast við myndböndin sem ég á eða hvort það nægi að halda áfram að æfa í stuttan tíma með sjónvarpinu?

Með fyrirfram þökk

Svar:

Sæl

Gaman að heyra að þú takir þátt í leikfiminni með okkur á Stöð 2. Það er mjög gott að hreyfa sig í þessar 10 mínútur á dag en það er ekki nóg ef markmiðið er að losna við aukakíló. Ég myndi mæla með því að þú gerðir æfingar í u.þ.b. 60 mín. á dag 5-6 daga vikunnar. Þú hefur mikið gagn af því að gera æfingar á myndbandi sérstaklega styrktar- og þolæfingar. Það er nauðsynlegt að þú stundir styrktaræfingar til að auka grunnbrennslu líkamans og þolæfingarnar styrkja hjarta- og æðakerfi líkamans og brenna fitu. Það eru til mög skemmtileg æfingamyndbönd t.d. um Tae bó. Það er gott að breyta til og hafa fjölbreytileika í æfingunum. Það væri skynsamlegt af þér að skoða neysluvenjur þínar því. Ef markmið þitt er að losna við 30 aukakíló þarftu að minnka hitaeininganeyslu þína í u.þ.b. 1400-1600 hitaeiningar á dag. Gerðu áfram æfingarnar með sjónvarpinu á morgnana það er góð byrjun á deginum og gerðu svo æfingarnar á myndböndum seinna um daginn þegar stelpan þín sefur eða um kvöldið þegar hún er sofnuð svo þú fáir góðan frið til að gera æfingarnar vel.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson