Hegðunarvandi

Komið þið sæl.

Ég er með fyrirspurn

Ég á einn 6 ára strák sem ég á í vandræðum með. Í fyrsta lagi. Hann notar enn bleyju á nóttinni, hann pissar yfirleitt mikið og vaknar oft pissublautur, hann er líka sí pissandi í sig allan daginn, þegar hann er heima allavega.Hann er einnig alls ekki spéhræddur og er oft alsber fyrir framan fólk og kippir sér ekkert upp við það.  Hann vaknar reglulega upp á nóttinni einu sinni að minnsta kosti í öskurkasti, öskrar og hrópar og maður getur ekkert gert til að stoppa hann, virðist vera að dreyma eitthvað eða eitthvað. Hann tekur oft ofsaköst á daginn ef honum mislíkar eitthvað og hendir hlutum í gólfið eða eitthvað svoleiðis. Hann á til að vera vondur við systkini sín og dýrin okkar. Hann vælir líka mjög mikið og fær hluti á heilann. Ef hann sér eitthvað sem hann vill í búð, þá hættir hann ekki að tuða, svo segir maður nei þá stingur hann af oft og lætur sig hverfa og svarar ekki köllum.

Hann hefur líka marga góða kosti. Hann er mjög aðlögunarhæfur, á auðvelt með að skipta um umhverfi, er mjög félagslyndur og finnst gaman innan um aðra krakka og er yfirleitt vinamargur og vinsæll meðal þeirra.

Eldri bróðir hans er greindur með Asberger og á við vandamál að stríða, en þau eru af öðrum toga, hann var aldrei líkamlega ofbeldisfullur og hefur alltaf átt við félagsleg vandamál að stríða. Þannig að við sjáum ekki alveg samhengi þar.

Er eitthvað af þessu kunnuglegt hjá honum? haldið þið að hann sé jafnvel með einhverja greiningu?

Takk fyrir að lesa

kv

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Mig langar til að svara þessari fyrirspurn í nokkrum hlutum.

Byrjum á þvagbleytunni. Líkaminn framleiðir hormón sem kallast þvagtemprunarhormón (ADH) og stjórnar það því að þvagframleiðsla minnkar á ákveðnum tímum, t.d. á nóttunni. Sum börn virðast ekki framleiða nóg af þessu hormóni á nóttunni og því helst sama þvagframleiðsla og er yfir daginn og þau væta því frekar rúm sín en þau börn sem framleiða eðlilega þetta hormón. Hugsanlega gæti vandamálið líka stafað af þvagfærasýkingu. Ég myndi því ráðleggja þér að ræða við lækni varðandi þvagbleytuna, því það eru til lyf og fleiri aðferðir sem geta hjálpað við þessu vandamáli.

Varðandi það að hann sé að vakna upp á nóttunni mjög órólegur og að þið getið ekki rætt við hann hljómar svolítið eins og svokallað ,,night terror.“ Ég myndi einnig ráðlegga þér að ræða það við lækni. Mögulega geta lyf hjálpað við því, en einnig gæti verið gott að skoða mataræði barnsins, því hugsanlega gæti þetta stafað af einhverju óþoli t.d fyrir mjólkurvörum.

Varðandi hegðun á daginn gæti það mögulega stafað af þreytu vegna ónógrar hvíldar eða einhverskonar vanlíðan. Mögulega væri því best að reyna að finna lausn á fyrstu tveimur vandamálunum og vonast til að hegðunarvandinn leysi sig svo sjálfur í kjölfarið.

Gangi ykkur vel

Arndís Sverrisdóttir

Hjúkrunarfræðingur