hegðun varðandi kynfæri

Daginn

Ég á 10 ára gamlan son sem hefur frá sirka 6.ára aldri verið að girða niður um sig og sýna á sér rassinn eða kynfæri. Hann er mjög mikið þegar hann er að leika eða tala að koma tippi og píku inn í umræðu, hann er með hegðunarvanda en hefur alltaf búið á sama staðnum, engar breytingar á heimilinu. Hann stundar fótbolta og er mjög góður en þetta háir honum að vera með ljótan munnsöfnuð og virða ekki eldra fólk. Hann er að segja við bróður sinn sem er 6.ára að ríða frænda sínum og svo hlær hann bara. Ég er bara ráðþrota og vantar svo hjálp hvort þetta eldist af honum eða hvað sé hægt að gera. Við pabbi hans ræðum þetta við hann og hann er einhvernveginn ekki að taka þetta alvarlega.
Vonandi getið þið svarað bréfi mínu
kv. ráðalaus

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þú nefnir hegðunarvanda en nefnir ekki hvort hann sé að fá aðstoð við honum. Þetta getur vel verið hluti af þeim vanda. Atferlismeðferð er væntanlega kjörmeðferð þar sem hann „aflærir“ neikvæðu hegðunina og lærir að setja „rétta“ hegðun í staðinn.

Ég hvet ykkur til þess að hafa samband við sálfræðing og fá aðstoð með þetta, því fyrr því betra, til þess að snúa af þessu. Þið getið haft samband við skólann og mögulega fengið ábendingar þar hvert hægt er að leita og/eða á heilsugæslunni.

Gangi ykkur vel