Hátt sökk og há hvítblóðkorn

Góðan dag,

ég hef verið að fara reglulega í blóðrannsóknir og niðurstaðan kemur alltaf að ég sé með hátt sökk og há hvítblóðkorn. Þetta hefur verið niðurstaðan í flest öllum blóðprufum sem ég hef farið í síðan árið 2006. Og heimilislæknir minn veit ekki hvað gæti verið að valda þessu. Síðan í fyrra hef ég farið í allskonar rannsóknir m.a sónar, tölvusneiðmyndatöku og ristill speglun en ekkert finnst. Einnig kom neikvætt úr gigtarprófi.
Ég hef undanfarið verið að finna fyrir ógleði og náladofa vinstri handlegg.
Því er ég orðin ráðalaus og orðin þreytt á að fá ekki neinn svör.
Því myndi ég gjarnan vilja fá ábendingu frá ykkur ef þið hafið einhverjar hugmyndir hvað þetta gæti verið.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Sökk hækkar við ákveðna sjúkdóma svo sem bólgusjúkdóma og hvít blóðkorn eru hluti af ónæmiskerfi líkamans og hækka þegar varnir líkamans eru virkjaðar t.d. við sýkingu. Hækkun á sökki og hvítum blóðkornum eru frekar ósértækar niðurstöður á rannsóknum en geta gefið ákveðnar vísbendingar sem þarf að skoða og túlka í samhengi við önnur einkenni. Hjá þér hefur hækkun á sökki og hvítum blóðkornum verið til staðar í ansi langan tíma og þær rannsóknir sem gerðar hafa verið hafa ekki sýnt fram á orsökina og í raun er ekkert annað að gera en að halda áfram að leita að skýringu. Ég mundi ráðleggja þér að byrja á að fara til sérfræðings í gigtarlækningum og fá hann í lið með þér til að skoða þetta en þó að gigtarpróf hafi verið neikvætt getur samt verið um einhverja tegund af gigt að ræða. Ef gigtarlæknir finnur ekki skýringu á þessu skaltu fá hann til að ráðleggja þér hvert þú átt að leita næst og þannig heldur þú áfram þar til þú færð rétta greiningu.

Gangi þér vel