Hætt að reykja og fitnar

Spurning:

Sæl Ágústa

Þannig er að mamma er nýhætt að reykja og hún er alltaf að verða meira og meira óánægðari með sjálfa sig. Hún hefur fitnað en samt er hún ekki að borða neitt meira en venjulega, hún drekkur til dæmis aldrei gos og borðar aldrei nammi, nema kannski smá þegar að hún er á túr. Mamma gerir æfingar 3-4 sinnum í viku og það bregst aldrei, þannig að ég skil ekki afhverju hún fitnar.

Mamma var alltaf mjó þangað til að hún varð þrítug þá byrjaði hún að fitna. Svo fór hún að eignast fleiri börn og fyrir fjórum árum átti hún tvíbura og það var mjög erfitt fyrir hana að grenna sig eftir það. Hún hefur í raunini aldrei náð því almennilega af sér. En aðalmálið er að hún er mjög óánægð og það er sama hvað hún gerir. Hún er að gera þolfimi, tæbó, og brennsluæfingar frá þér Ágústa, þetta virðist bara ekki virka! Vona að þú getir hjálpað mér hvað ég eigi að segja við mömmu.

Svar:

Sæl.

Til að bæta á okkur aukakílóum þurfum við að neyta meira en við brennum og til að losna við aukakílóin þurfum við því að brenna meira en við neytum. Þú gefur ekki nákvæmar upplýsingar um hvað mamma þín borðar og hvað hún æfir oft í viku og lengi í senn og því er erfitt að gefa ráðleggingar. Þú talar heldur ekki um hversu langt frá kjörþyngd mamma þín er.

Ég gæti þó trúað að hún þyrfti að æfa oftar í viku og skoða aðeins betur fæðuvenjur sínar. Þó að hún borði ekki sætindi og drekki gosdrykki getur samt sem áður verið að hún neyti þess hitaeiningamagns sem hún þarf til að standa í stað. Ef hún vill létta sig þá þarf hún að endurskoða neysluvenjur sínar og e.t.v. hreyfa sig meira.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari