Gulrætur og vítamín

Spurning

Ég hef hugsað mér að grennast dálítið eftir hátíðarnar og er þegar byrjuð að breyta matarvenjum mínum í samræmi við meiri hollustu. Því langar mig að spyrja tveggja spurninga. Upp á síðkastið er ég farin að borða margar gulrætur í vinnunni á daginn, svona 4-8 á dag. Er möguleiki á því að ég geti fengið of mikið af vítamínum af því?

Einnig þætti mér vænt um að heyra svolítið um hvaða máli neysla áfengis, til dæmis rauðvíns, skiptir í sambandi við megrunarkúr. Umbreytist áfengið í fitu?

Get ég látið eftir mér að drekka glas af rauðvíni stöku sinnum eða eyðileggur það allt saman?

Svar:

Ólíklegt er að þú fáir of stóran skammt af vítamínum með þeirri neylsu sem þú nefnir. Þú getur kannski orðið svolítið gul á hörund en það er hættulaust. Skynsamlegra væri hinsvegar að auka svolítið fjölbreytnina í neyslu grænmetis og bæta við öðrum tegundum, t.d. blómkáli, hreðkum (radísum) og grænu grænmeti, jafnvel í formi salats. Þannig færðu fjölbreyttari vítamín og snefilefni. Ávextir til tilbreytingar gerðu líkama þínum einnig gott.

Jafnvægi milli neyslu hitaeininga og brennslu er það sem mestu skiptir í sambandið við líkamsþyngd. Heildarmagn hitaeininga skiptir máli þegar fólk fer í megrunarkúr og hitaeiningar sem fengnar eru úr áfengi breytast auðveldlega í fitu. Þannig ber að taka þær með í reikninginn þegar fólk vill léttast. Áfengi í hófi hættulaust í megrunarkúr en ef þér finnst þú léttast of hægt, þá ráðlegg ég þér að sleppa áfenginu.

Upplýsingar um skynsamlega leið til að léttast er að finna hér á Doktor.is.

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir