græt yfir öllu

Hæhæ,

Ég á það til að gráta yfir hlutum sem skipta engu máli, hlutir sem ég hef ekki áhuga á að gráta yfir, ég ræð bara ekki við mig og brotna bara niður. Einnig verð ég mjög niðurdregin yfir minnstu hlutum sem ættu ekki að hafa mikil áhrif á mig. Ég á líka oft erfitt með svefn á þar sem ég hugsa of mikið um hluti sem ég þarf að gera og hefði getað gert betur.
Er þetta eðlilegt? er þetta eitthvað sem flestir glíma við? Er eitthvað sem ég get gert?

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það koma kaflar í lífi flestra þar sem maður er næmari og viðkvæmari fyrir. Það getur verið tengt álagi, stöðu manns í lífinu hverja stundina eða fyrri reynslu. Hormónasveiflur eru þekktar fyrir að valda tilfinningaróti og viðkvæmni t.d. tengt hvar í tíðahringnum maður er,á meðgöngu, eftir fæðingu og á yfirgangsaldrinum.Einnig eru sumir bara viðkvæmari en aðrir. Ef þú tengir þetta ekki hormónasveiflum hjá þér eða tímabundnu álagi og þetta háir þér mikið getur þú leitað til sálfræðings sem getur hjálpað þér að finna út hvað veldur þessu tilfinngaróti sem virðist vera blanda af kvíða og jafnvel óöryggi með þig sjálfa og hjálpað þér að styrkja þig sjálfa. Þú getur einnig leitað til þín heimilislæknis eða kvensjúkdómalæknis og rætt hugsanlegt homónaójafnvægi.

 

Gangi þér vel