Gliosa

Hvað er gliosa í sambandi við hvítavefsbreytingar í höfði?

Góðan dag.

Gliosa kallast það þegar breyting verður á heilafrumum við áverka sem getur í alvarlegum tilfellum orðið að örmyndun í heila. Þessir áverkar geta bæði verið af völdum utanaðkomandi þátta svo sem höfuðhöggs og heilablóðfalls eða vegna hrörunar- og bólgusjúkdóma eins og MS og Alzheimers.

Gráa og hvíta efnið í heilanum hefur sitthvorn tilganginn, gráa efnið liggur á yfirborði heilans og sér um hugsun og  úrvinnslu á meðan hvíta efnið liggur dýpra inn í heilanum og virkar sem boðleið milli starfsstöðva gráa efnisins. Breytingar eða skemmdir á hvíta efni heilans geta því valdið því að þessi boðleið brenglast og taugaboð komast ekki eðlilega til skila í heilanum. Sjúkdómar sem valda breytingum á hvíta efni heilans eru t.d. MS, Alzheimers og heilabilun en einnig geta áfengistengdir sjúkdómar haft svipuð áhrif. Í einhverjum tilfellum geta skemmdir á hvíta efni heilans gengið til baka öfugt við skemmdir á gráa efninu þar sem skaðinn er yfirleitt óafturkræfur.

 

Vona að þetta svari spurningu þinni.

 

Oddný Þorsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur