Gilbert’s heilkenni

Mig vantar meiri upplýsingar um Gilbert’s heilkenni, það eru 3 ár síðan talið var að ég væri með þetta heilkenni, hef þó aldrei leitað til sérfræðings á þessu sviði. Ég fæ guluköst, verkjaköst ásamt þreytu samfara. En nú sést á CT sem tekin var af öðrum ástæðum að ég er með milda lifrarstækkun, einnig stixast ++bilirubin í þvagi hjá mér.Er ávallt með einhverja hækkun á bilirubin í blóði. Ekki búið að athuga núna hvort sé conjugerað eða ó-conjugerað, var gert fyrir 3árum. Mig langar að vita hvort Gilbert valdi þessu, hélt hann ætti að vera alveg meinlaus? Er ástæða til að ég panti mér tíma hjá meltingarsérfræðingi eða á ég að hætta að hafa áhyggjur af þessu.
Kveðja

 

Sæll/sæl

Takk fyrir fyrirspurnina

Venjulega eru einkenni um Gilberts heilkenni sú að húðlitur og augnhvíta verða gul stöku sinnum, vegna vægrar hækkunar bilirubins í blóði. Veikindi, stress og svefnleysi eru talin geta aukið á einkenni gulu.  Yfirleitt er alltaf væg hækkun á bilirubini til staðar í blóði ef maður er með Gilberts og þarfnast yfirleitt engrar sérstakrar meðferðar þar sem bilirubinið leysist upp að sjálfu sér.

Ég ráðlegg þér að panta tíma hjá meltingarsérfræðingi til þess að meta þetta frekar og mögulega þarf að framkvæma frekari rannsóknir til að kanna hvað veldur stækkun á lifur.

 

Gangi þér vel