getur verið hættulegt eða slæmt að meika sig og mala á hverjum degi ?

hæhæ er með spurningu er buin að vera með þannig áráttu að vera mála mig og maskara og stundum meika mig enn meika annan hvern dag bara get ekki byrjað daginn oðruvisi enn er eg að gera eitthvað sem er slæmt fyrir húðina með að gera þetta svona oft ?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,

þú ert ekki að gera húðinni neitt slæmt með því að nota farða. Farði getur verið góð vörn gegn veðri, sól, mengun og öðru áreiti sem húðin verður fyrir á hverjum degi.

Til eru margar mismunandi tegundir af farða sem henta mismunandi húðgerðum.  Það eru til dæmis;  púðurfarði sem hentar fyrir blandaða húð;  fljótandi farði sem getur hentað flestum húðgerðum og hægt að velja um áferð og hversu þekjandi hann er;  BB/CC kremin eru léttir farðar sem minna á lituð dagkrem. Steinefnafarði er náttúrulegur farði sem getur hentað þeim sem eru með viðkvæma húð eða þola illa snyrtivörur sem hafa ilm.

Hreinsun er eitt það mikilvægasta í daglegri umhirðu húðarinnar, það þarf að þrífa húðina hvort sem notaður er farði eða ekki. Það safnast allskonar óhreinindi á húðina yfir daginn, mengun í loftinu legst á húðina og hiti og sviti hafa áhrif á hana. Fílapenslar og bólur myndast ef húðin er ekki þrifin reglulega.

Lykilatriðið er að hreinsa húðina vel í lok dags og fara að sofa með hreina húð, einnig er góð regla að skipta reglulega um koddaver.  Aðeins góð húðumhirða getur tryggt okkur fallega húð og stuðlar að heilbrigðri endurnýjun og styrkir þannig náttúrulegt varnarkerfi húðarinnar.

Leitaðu ráðlegginga hjá fagfólki við val á húðvörum, það mun skila sér í árangri og vellíðan að fá vörur sem henta þér og þinni húð.

Gangi þér vel