Fyrirspurn vegna vanlíðan barna

Góðan dag,

Mig langar að spyrja ykkur hvert ég get leitað mér aðstoðar vegna sonar míns sem verður 2ja ára núna í júní.

Þannig er málið að í fyrra var hann mikið með eyrnabólgur og endaði á að fara í rör, þegar eyrnabólguvesenið byrjaði breyttist karakterinn hans algerlega.  Hann öskraði mikið en virtist alltaf lagast þegar hann fékk sýklalyfin og eyrnadropana.  Svo fór hann í rör – eyrnavesenið hætti ekki á þeim tímapunkti og hann er búinn að vera með sýkingar, stiflu í öðru rörinu og nú er það að detta úr hægra megin.  Ég veit ekki hvort þetta fylgist að en leyfði þessu að fylgja með.

Hann grætur mikið, öskrar, vill lítið sem ekkert borða og drekkur mjög lítið (hefur reyndar alltaf verið frekar óduglegur að borða).  Hann hendir sér í gólfið og skallar bæði gólf og hurðar þegar hann er reiður eða fær ekki það sem hann vill.

Á hverjum degi hugsa ég með mér að það sé eitthvað að, því frá því hann fæddist var hann glaður og alltaf brosandi – þegar veikindin byrjuðu, breyttist hann algerlega.  Við foreldrarnir erum alveg ráðalaus hvað hægt er að gera, við höfum reynt að sinna honum meira, leika við hann meira, gera eins og hann vill en hann tekur sig til og sparkar í okkur eða lemur – svo hlær hann.

Hvert get ég leitað til að fá einhverja aðstoð, þetta nagar mig á hverjum degi og ég er alveg ráðþrota.

Með kveðju,

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þessi hegðun sem þú lýsir hjá drengnum þínum getur í fljótu bragði verið afleiðing af veikindunum í samblandi við þroskaverkefni sem hann er að fást við og er kennt við 2 ára aldurinn en þá hefst mikil sjálfstæðisbarátta, þau eru að prufa hversu langt þau geta gengið, en geta ekki ennþá sett sig í spor annarra og birtingarmyndin er gjarnan ýkt frekjuköst jafnvel hjá hinum prúðustu börnum, foreldrum til mikillar armæðu. Hins vegar getur auðvitað eitthvað annað verið að angra piltinn og nauðsynlegt að komast að því með einhverjum ráðum hvort svo sé.

Þú nefnir ekki hvort hann sé byrjaður á leikskóla, en þar er mjög gott að fá aðstoð við að meta stöðuna, lætur hann svona þar líka eða beinist þessi hegðun bara að ykkur foreldrunum?  Hvað með Heilsugæsluna? Hvernig kemur hann út í skoðunum hjá ungbarnaeftirlitinu? Þroskast hann eðlilega miðað við þeirra athuganir?  Það getur verið mjög gott að leita þangað því þar eru sérfræðingarnir. Svo er auðvitað alltaf hægt að fara til barnalæknis og fá skoðun og mat hjá honum.

Gangi ykkur vel