Frumubreyting í leghálsi hjá 23 ára

Góðan dag.
Fyrir 3 árum þegar ég var 20 ára fór ég í krabbameinsskoðun í leghálsi og allt var eðlilegt. Sama ár breyttust reglurnar að maður þyrfti ekki að fara fyrr en 23 ára.
í dag er ég 23 ára og fékk boð um að fara í leghálsskoðun og pantaði mér tíma hjá kvennsjúkdómalækni fyrir u.þ.b. mánuði. Hún sagði mér að það væri ekki þörf að að taka sýni því það væri svo stutt síðan ég hefði farið. Ég ákvað samt fyrst ég var komin að láta taka sýni.
Ég fékk póst frá lækninum mínum í gær að það væru frumubreytingar í leghálsi og þyrfti að fara í leghálsspeglun og taka vefjasýni.
Mig langar að spyrja, Er eðlilegt að frumubreytingar eigi sér stað hjá þetta ungum einstakling?
Einnig hvað er það sem veldur og getur þetta haft áhrif á barneignir seinna meir?
m.b.kv.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Leghálskrabbamein og frumubreytingar eru af völdum HPV (Human Papilloma Virus) sem er algengasti kynsmitið í heiminum. Flestar HPV-sýkingar eru einkennalausar, hættulausar og ganga til baka. Í sumum tilfellum getur veirusýkingin valdið alvarlegum frumubreytingum sem geta þróast í leghálskrabbamein,venjulega á löngum tíma (nokkrum árum eða áratugum).

Leghálskrabbamein er sjaldgæft hjá ungum konum (yngri en 25 ára). Þó flestar ungar konur smitist af HPV stuttu eftir að þær hefja kynlíf þá hverfur sýkingin hjá helmingi þeirra sem smitast á um sex mánuðum og í um 90% tilfella er hún horfin innan tveggja til þriggja ára. Þessar HPV veirusýkingar geta valdið frumubreytingum sem flestar ganga til baka. Þess vegna er ekki talið nauðsynlegt að leita skipulega að krabbameini í leghálsi fyrr en við 23 ára aldur. Ef byrjað er að leita fyrr er hætta á að finna frumubreytingar sem aldrei hefðu þróast í leghálskrabbamein. Það er því ekkert óeðlilegt að frumubreytingar greinist hjá þér svona ungri  en talið óþarfi að fylgjast með þessum breytingum fyrr en við 23 ára aldur þar sem þær ganga yfirleitt til baka án frekari aðgerða. Það er ennþá lang líklegast að þessar breytingar gangi til baka há þér, en hér eftir verður því fylgt eftir og fylgst með þróuninni sem er mikið öryggi fyrir þig og engin ástæða til að hafa af þessu of miklar áhyggjur ef þú ferð í þær skoðanir og eftirlit sem þú ert boðuð í. Vægar frumubreytingar hafa engin áhrif á mögulegar barneignir síðar meir.

Gangi þér vel