Frjósemi og blöðrumyndun á eggjastokkum

Spurning:

Komdu sæll.

Ég er 25 ára gömul og hef verið að reyna að verða þunguð í 7 mánuði. Ég hef lesið mörg bréfin sem ykkur hafa verið send og þau svör sem hafa verið gefin um þau mál sem líkja má við mínu. Ég geri mér því grein fyrir að þetta getur tekið tíma. En það eru samt nokkrar spurningar sem mig vantar að fá svör við.

1. Eftir hversu marga mánuði telst eðlilegt að hafa samband við lækni og fá ráðleggingar er varða frjósemi? Hvort væri það heimilislæknir eða kvensjúkdómalæknir? Þá er ég líka að hugsa um manninn minn.

2. Ég veit að egglos á sér stað 14 dögum fyrir blæðingar +/- 3-4 dagar (og þá 14 dögum eftir 1. dag blæðinga í 28 daga tíðahring). En þegar blæðingar eru óreglulegar allt frá u.þ.b. 28 dögum upp í 42 daga, hvernig er þá hægt að reikna út egglos?

3. Það er oft sem í bréfum varðandi konur sem eru að reyna að verða þungaðar, og gengið hægt, að þær hafa verið með blöðrumyndun á eggjastokkum. Hvers konar blöðrur eru þetta og hvaða áhrif hafa þær á frjósemi kvenna?

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæl.

Þú ferð víða svo við skulum draga þetta saman:

1) Varla fyrr en eftir 4-6 mánuði sem er eðlilegur biðtími frjósams pars. Flestir heimilislæknar geta sett í gang grunnrannsóknir bæði á þér og eiginmanni.

2) Það er erfiðara fyrir þig með óreglulegri hring að reikna þig út en þá eru til sérstök egglosunarpróf sem þú getur keypt í apóteki og komist nær réttu dögunum. Best er að láta sálina ráða í slíkum tilfellum þar sem þú þarft að nýta þér fleiri daga og hefur færri „hvíldardaga“! Hins vegar kæmi til sérhæfðari örvanir hjá konu eins og þér og e.v.t. frekari hormónamælingar.

3) Blöðrurnar eru eggbúin þín sem eiga að springa og losa egg, en gera það ekki alltaf á réttum tíma. Því er til sérgreinin kvensjúkdómafræði til þess að aðstoða þær konur sem þannig er ástatt um.

Gangi þér vel, kveðja,
Arnar Hauksson dr. med.