Frjókornaofnæmi

Góðan dag
Ég er að velta fyrir mér með frjókornaofnæmi. Nú hef ég verið með það í allavega 12 ár og alltaf verið mjög slæm. Sérstaklega eftir að ég flutti í sveit fyrir 4 árum og heyskapur í fullum gangi þá oft bara sef ég ekki á nóttunni fyrir óþægindum því þetta berst svo inn. Nú hef ég aldrei verið á lyfseðilsskyldum lyfjum við þessu, er alveg hægt að fá eitthvað við þessu sem virkar?
Svo er ég nýfarin að stunda hreyfingu reglulega, byrjaði fyrir sumarið i fyrra að æfa en svo þegar leið á þá bara gat ég ekkert gert á æfingum vegna andþyngsla og óþæginda, ég varð bara andlaus eftir smá átök og hætti þá bara að mæta. Tengdi svo ekki fyrr en löngu seinna að þetta gæti tengst ofnæminu því þegar ég mætti svo aftur eftir sumarið þá var allt í góðu. Ég las þessa grein: https://doktor.frettabladid.is/grein/frjoofnaemi og sá þá með lungun og áreynsluastma sem fólk með frjókornaofnæmi hefur oft yfir sumarið. Þetta lýsir bara nákvæmlega minni upplifun og mér finnst eins og þetta gæti alveg verið það sem ég lenti í þó svo að hafa ekki fundið fyrir því áður en þá hef ég bara eiginlega ekki hreyft mig neitt af viti áður og alls ekki yfir sumarið.
Mæliði með að hafa samband við lækni og fá eitthvað uppáskrifað við þessu? Er nóg að panta símatíma í svoleiðis? Mér þætti svo ótrúlega svekkjandi að þurfa að hætta að æfa vegna vanlíðanar í sumar og svo er bara orðin svo hrikalega þreytt á að vera drepast svona mikið yfir allt sumarið og geta oft ekki sofið. Myndu þið mæla með að ég fengi eitthvað við þessu miðað við þessar upplifanir sem ég lýsi hér? Hef liggur við aldrei farið til læknis svo ég er eitthvað hálffeimin við þetta…

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þú skalt ekki hika við að panta þér tíma hjá heimilislækni og fá aðstoð og betri meðferð, símatími er ekki nóg.  Þar færðu markvissari meðferð og mögulega er hægt að mæla lungnastarfssemina ef ástæða er til.

Gangi þér vel