Framhjáhald og áframhald ?

Ég var að komast að því að maðurinn minn til rúmra 20 ára er búin að vera í leynilegu ástarsambandi við vinnufélaga í marga mánuði. Áður en uppkomið um sjálft framhjáhaldið ( bara fyrir nokkrum vikum) þá greindi hann mér frá því að hann væri ekki nægilega hamingjusamur, það væri ekki endilega sjálft hjónabandið heldur lífið sjálft. Hann vildi svo sem ekki mikið ræða hvað væri að angra hann en að oft þegar hann væri einn þá liði honum betur heldur en með mér eða okkur fjölskyldunni. Nokkrum dögum síðar ræddi ég betur við hann og spurði hvort hann væri að bera tilfinningar til einhverrar annarra konu og hann tók alveg þvert fyrir það. Hann vantaði einhvern lífsneista og væri í raun hissa á hvað lífið væri oft leiðinlegt.

Við tóku nokkrar vikur að breyttri hegðun hjá okkur báðum – bæði að vanda sig í samskiptum og reyna að hlúa að okkur sem pari. Ég skrifaði honum einlægt bréf, vegna þess að oft var erfitt að finna lausa stund til að ræða málin, börn á heimilinu og gestagangur. Í bréfinu legg ég allar mínar tilfinningar á borðið, að ég elski hann og að við höfum stundum tapað gleðinni fyrir hvort öðru í sambandinu en að ég vilji að heilum hug gera allt sem okkur dettur í hug til að vinna í sambandinu. Nokkrar vikur liðu og oftast nær gengu hlutirnir vel.
Síðan áttum við góða helgi þar sem við sinntum sameiginlegu áhugamáli okkar. Allt í einu sprettur minn maður á fætur og segist ætla í bakarí ( sem hann gerir ekki oft nema það sé eitthvað planað ) Hann er í burtu í rúman klst. og sækir börnin okkar í pössun í leiðinni. Þessi dagur var í raun notalegur. Við sinntum heimilisstörfum saman með því að sinna börnum og fleira. Allt í einu tek ég eftir að honum líður ekki vel. Ég spyr hvort allt sé í lagi og þá segir hann – Nei ég er búin að klúðra málunum – Ég hélt framhjá þér. Ástæða bakarísferðar afhjúpuð – hann fékk skilaboð frá eiginmanni hjákonunnar- Það er eins og eldgos sé að fæðast innra með mér – mér líður eins og hiti og ólga færist um allan líkamann ásamt því að fyllast af velgju. En ég næ samt að halda ró minni.
Ég spyr hvort ég viti hver þetta er og þá kemur í ljós að þetta er vinnufélagi. Það kom mér þannig séð ekki á óvart því mér hefði oft fundist hann tala mikið um hana og sýndi henni mikinn áhuga á samfélagsmiðlum.

Nú koma næstu skref – hann segist heilhugar vilja bjarga okkar hjónabandi – þetta hafi verið mistök en að hann hafi og beri miklar tilfinningar til hennar. Ég vil trúa honum og halda áfram án þess að velta mér uppúr þessum mistökum – en þegar ég er ein þá fara milljón hugsanir af stað um hvort í raun hann vilji reyna áfram með mér – var það of flókið að skilja og taka saman við aðra konu sem á líka börn, er of flókið að vera með fyrrverandi maka sem hugsanlega er reiður og á erfitt með að komast yfir svikinn ?
Það situr í mér að hann hafi ekki á neinum tímapunkti rætt málin við mig um að hann væri óhamingjusamur. Mér finnst hann bera lítið traust til mín að ekki trúa að ég geti með honum unnið bug á tilverunni.

Einnig er ég föst í hugsunum um hvort þau geti slökkt á tilfinningum sínum til hvors annars þegar þau hittast á hverjum degi áfram.

Ég er búin að fá tíma hjá sálfræðingi en það eru rúmar 3 vikur í tímann. Mér finnst ég vanta svo að tala við einhvern fagaðila og láta aðeins stappa í mér stálinu þangað til að ég kemst að – en hingað til hef ég ekki fundið neinn til að gera það og þess vegna er ég að skrifa hér.
Ég vil ekki segja vinum og fjölskyldu frá þessum svikum – ég vil ekki „sverta“ hann ef að við náum að vinna úr okkar málum.
En ég er með svo mikið af EN-um. Til dæmis hefur mér fundist maðurinn minn oft vera leiður, uppstökkur, áhugalaus um samveru fjölskyldu osfrv. Og ég hef bent honum á að leita sér hjálpar ef ég geti ekki hjálpað honum. Hann hefur hingað til tekið því illa og segist ekki trúa á samtalsmeðferðir. Ég óskaði eftir því eftir að þetta allt gerðist að hann skyldi sækja sér aðstoð og að við skyldum sækja okkur ráðgjafar saman. Hann er tregur til að mínu mati og það hræðir mig. Er hann bara sáttur að þessu sé lokið – hann þarf ekki að burðast með samviskubit eða vera að ljúga ? og er hann ekki að fara að taka þessu alvarlega og vinna að heilhug í okkar málum ?
Ég er einnig með allskyns rugl hugsanir í gangi – td. er ég að fara að henda mér útí margra mánaða/ára sambandslagfæringarvinnu ef svo með tímanum hann hættir að reyna og það er allt til einskis.
Einnig hefur það valdið mér áhyggjum að á sama tíma og hann á í þessu alvarlega sambandið við hana sem var bæði tilfinningalegt og líkamlegt að þá er hann líka að eiga það samband við mig hér heima. Hann var í raun að sofa hjá okkur báðum á sama tíma. Ég á eitthvað erfitt með að skilja hvernig það er hægt, að vera svo svikull að geta skipt sér svona á milli tveggja aðila.

Ég er gáfuð kona með yfir meðal greind og sinni ábyrgðarfullu stjórnunarstarfi – en í dag líður mér eins og kjána sem geti ekki tekið lífið sitt föstum tökum. Ég er búin að lenda í því að bresta í grát á síðustu dögum oftar en mér þykir í lagi – ég hef þurft að láta mig hverfa úr vinnunni því ég get ekki hætt að gráta.

Er til neyðarmóttaka fyrir fólk með brostið hjarta ?

Hvað er til ráða ? Ég veit varla hvort þarna sé spurning sem neinn annar en við tvö í okkar hjónabandi getum svarað – en að vissu leyti þá er gott að skrifa þetta niður til að reyna að ná tökum á aðstæðum.

 

Sæl og afsaka sein svör hjá okkur.
Eins og þú segir sjálf þá er þetta spurning sem aðeins þið tvö getið svarað. Viljið þið bjarga hjónabandinu,getur þú fyrirgefið og vill hann koma aftur til þín sem þinn eiginmaður? Það er nauðsynlegt að þið svarið þessum spurningum en áður getur verið skynsamlegt að þið ræðið hvort fyrir sig við sálfræðing eða annan sáluhjálpara,vin eða prest sem margir hafa sérhæft sig í hjónabandsráðgjöf . Það getur hjálpað ykkur að fá skýrari hugsun og mynd áður en þið takið ákvörðun um framhaldið.  Þetta mál er mjög mikilvægt að þið vinnið síðan úr saman ef sáttir eiga að nást. Ég geri ráð fyrir að þú sért búin fara í viðtalið hjá sálfræðingnum og vonandi hjálpar hann þér og leiðið þig áfram í gegnum þína úrvinnslu.

Gangi ykkur vel.