Fráhvarfseinkenni.

Ég er 55 ára karlmaður. Dagdrykkjumaður í ca 20 með edrútímabilum eftir meðferðir (lengsta 6 mánuðir). Er á 1. edrúdegi og á leið í nýtt úrræði hjá SÁÁ. Ég fékk lækni í lið með mér o6 tek Risolid til að slá á fráhvörfin, eirðarleysi, skjálfta, svitamyndun og hröðum hjartslætti (geri ráð fyrir að blóðþrýstingurinn sé of hár og Risolid hjálpar viðað lækka hann,skilst mér.?). Þegar ég hætti að drekka fæ ég þessi fráhvarfseinkenni en svo ég líka útbrot, sérstaklega útlimi og þeim fylgir pirrandi, en þolanegur, kláði. Spurning mín er hvort þetta þekkist sem fráhvarfseikenni? Er þetta stresseinkenni? Eitthvað annað?

 

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Ég finn reyndar ekkert í heimildum um að útbrot og kláði séu eitt fráhvarfseinkenna áfengis, svo það er ekki talið upp sem þekkt.

Þetta fann ég á Vísindavefnum og er einmitt sömu fráhvarfseinkenni og þú lýsir að þú hafir.

„Fráhvarfseinkenni frá áfengi eru venjulega skjálfti, óróleiki og ofstarfsemi á adrenerga hluta sjálfráða taugakerfisins sem meðal annars kemur fram í hröðum hjartslætti og háum blóðþrýstingi. Alvarlegri fráhvarfseinkenni eru krampar, ofskynjanir eða titurvilla (Delerium tremens). Áfengi víkkar út æðar í húðinni og veldur hitatilfinningu í fyrstu en lækkar líkamshita þegar til lengri tíma er litið og því er hættulegt að nota það gegn kulda“.

Útbrot og kláði geta frekar verið til dæmis ofnæmi eða exem.

Þú ættir endilega að ræða við lækninn þinn um þetta. Hann gæti hugsanlega skrifað upp á áburð og eða ofnæmistöflur.

Gangi þér vel,

Svanbjörg Pálsdóttir

Hjúkrunarfræðingur