Fóstureyðing

Hæhæ ég er 17 ára og held að ég sé mjög líklega ólétt en til að vera viss ætla ég að taka próf í fyrramálið. Ef ég er ólétt væru komnar 3-5 vikur síðan getnaður varð. Ef ég færi út í það að eiga barnið stæði ég sem 17 ára einstæð móðir, með nánast engan pening, lítinn stuðning og brotna sjálsmynd og þess vegna tel ég það ekki möguleika að eiga þetta barn. Er einhver hætta á að mér yrði neitað að fara í fóstureyðingu og við hvern tala ég til að komast í fóstureyðingu? Er hægt að gera allt tengt fóstureyðingu á sama deginum, s.s. tala við þennan félagsráðgjafa, skoðanir og eyðingin sjálf því ég bý út á landi, er í fleiri en einni vinnu og á erfitt með að komast oftar en einu sinni.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnin

Fyrsta skrefið hjá þér er að komast að því hvort þú ert ólétt. Ef svo er getur þú farið að hugsa næstu skref. Ef þú ert ólétt og  velur að fara í fóstureyðingu er ákveðið ferli sem þú þarft að ganga í gegnum. Þar sem þú býrð úti á landi, mæli ég með, að þú pantir þér tíma hjá þínum heimilislækni. Heimilislæknirinn getur gengið frá umsókn um aðgerð til sjúkrahússins og gert nauðsynlegar undirbúningsrannsóknir og skoðanir. Ef þinn læknir hefur gengið frá öllum formsatriðum þarf aðeins eitt viðtal á sjúkrahúsinu áður en aðgerðin sjálf getur farið fram og þá er líklegt að hægt sé að klára þetta í einni ferð. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að þér verði neitað um að fara í fóstureyðingu, það er mjög sjaldgæft að það sé gert og tengist þá yfirleitt aldri fóstursins.

Hér getur þú lesið upplýsingabækling Landsspítalans um fóstureyðingar og ég hvet þig til að skoða hann vel.

Gangi þér vel