Flogaveiki PNES

Dóttir mín sem er rúmlega fertug er að glíma við flog sem byrjuðu fyrir 3 árum. Hún er búsett í Noregi þar sem hún hefur verið rannsökuð og komist var að þeirri niðurstöðu að þetta væri eķki hefbundin flogaveiki heldur stöfuðu flogin af sjúkdómi sem kallast Pnes. Flogin koma fyrirvaralaust svo hún er hrædd við að vera ein á ferð. Kannist þið við þennann sjúkdóm og vitið þið hvað er til ráða þar sem hún má ekki taka inn flogaveikilyf þar sem Pnes telst ekki hefbundin heilaflogaveiki.? Hvaðá læknar (sérfræðingar ) á íslandi meðhöndla svona sjúklinga?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

PNES stendur fyrir Psychogenic Nonepileptic Seizures sem þýða mætti sem geðræn flog ótengd flogaveiki. Ólíkt flogaveiki tengjast því köst af völdum PNES ekki afbrigðilegri heilavirkni og virka því hefðbundin flogaveikislyf ekki á sjúkdóminn. PNES stafar í flestum tilfellum af undirliggjandi geðrænum röskunum og meðferðin grundvallast því af því að greina og meðhöndla hina undirliggjandi geðrænu þætti sem stuðla að köstunum.

Undirrituð hefur ekki þekkingu um sérfræðinga sem sérhæfa sig í meðferð PNES hér á Íslandi en líklega er besta lausnin að byrja hjá sínum heimilislækni sem getur vísað viðkomandi áfram í viðeigandi úrræði til meðferðar. Það ætti að vera hægt hvort sem það er hér á Íslandi eða í Noregi.

Gangi ykkur sem allra best
Erla Guðlaug Steingrímsdóttir, Hjúkrunarfræðingur