Félagsfælni

Hæhæ, ég er 18 ára og held að ég gæti verið með félagsfælni, en er þó ekki viss. Mig langar mjög að fara til læknis og fá greiningu en ég held að ég hafi ekki kjark í það þar sem ég er mjög viðkvæm og mun líklegast fara að gráta.

Ég tel að ég gæti verið með félagsfælni af því að oft ef ég er í litlum hópi, með tveimur eða fleirum, jafnöldrum mínum get ég varla komið upp orði þar sem ég er stressuð um að þau muni telja mig leiðinlega eða dónalega þegar ég tala. Einnig á ég mjög erfitt með að kynnast nýju fólki og er búin að missa tengsl við vinkonu mína, þar sem hún á marga vini sem ég get ekki verið í kringum og einnig tek ég ekki þátt í neinu sem tengist skólanum. Það helsta sem ég hræðist eru fyrirlestrar og eru þeir farnir að versna, ég svitna, titra í röddinni og yfir líkamann og hjartslátturinn fer upp í hundrað og á erfitt með að ná andanum.

Ég veit ekki hvað ég get gert í þessum málum því ég er strax orðin kvíðin fyrir að fara til læknis þrátt fyrir að ég er ekki einu sinni búin að panta tíma. Ég vil mjög mikið verða venjuleg og geta verið ég sjálf í öllum aðstæðum. Gæti ég losnað við þetta á einhvern annan hátt en að fara til læknis eða þá skrifað honum bréf í staðinn fyrir að mæta í viðtal? Ég er mjög hrædd um að ég muni ekki segja allt sem ég vil segja ef ég fer í viðtal af því að mér mun örugglega finnast svo erfitt að tala og segja þess vegna sem minnst. Hvað gerist líka ef hann greinir mig með feimni, þarf ég þá bara að reyna að kljást úr þessu sjálf eða ætti ég að reyna að finna hjálp annars staðar? Fyrirgefðu hvað þetta er langt, vissi bara ekki hvernig ég gæti komið þessu frá mér á styttri hátt.

Kv. Ég

 

Sæl

Félagsfælni einkennist af miklum og stöðugum ótta við einhverskonar félagslegar aðstæður eða við að verða veginn og metinn af öðru fólki. Óttinn stafar af því að einstaklingurinn heldur að hann gæti hegðað sér með þeim hætti að hann verði að athlægi eða verði sér til minnkunar. Að hendur hans taki að skjálfa og hann missi það sem hann heldur á, að hann stami eða segi eitthvað óviðeigandi, svitni svo að sjáist o.s.frv. Hann forðast aðstæður sem hann telur að geti kallað fram vanlíðan og láti hann sig hafa þær fyllist hann afar miklum kvíða og óþægindum. Áður en hann leggur af stað hugsar hann um allt það sem gæti farið úrskeiðis. Eins og í annarri fælni getur óttinn birst í sterkum líkamlegum kvíðaeinkennum, eins og örum hjartslætti, óþægindum í meltingarfærum, svita, handskjálfta o.s.frv.

Greining á félagsfælni hjá fullorðnum byggist fyrst og fremst á viðtölum. Það skiptir máli að gera greinarmun á félagsfælni og þunglyndi. Ástæður hvors um sig eru ólíkar þegar fólk með þessa sjúkdóma einangrar sig frá samskiptum við aðra af því að hvort tveggja er ólíkt meðhöndlað.

Í meginatriðum eru notaðar tvenns konar meðferðir við félagsfælni, annars vegar hugræn atferlismeðferð og hins vegar lyfjameðferðir af ýmsu tagi.

 

Eins og þú lýsir líðan þinni held ég að þú þurfir á hjálp að halda og þú hefur nú með þessari fyrirspurn stigið fyrsta skrefið til þess að leita þér aðstoðar.

Starfandi geðlæknar og sálfræðingar þekkja vel til félagsfælni og hafa sumir mikla reynslu af meðferð við henni. Gott er því að leita beint til þessara sérfræðinga. Aðrir heilbrigðisstarfsmenn þekkja líka til vandamálsins og geta veitt ráð og leiðbeiningar um hvert sé skynsamlegt að leita.

Það skiptir miklu máli að þú útskýrir vel hvernig þér líður og gætir þessvegna ef þér finnst erfitt að tala um líðan þína, tekið með þér bréfið sem þú skrifaðir hér til þess að útskýra og brjóta ísinn.  Annars er heilbrigðisstarfsfólk öllu vant og kippir sér lítið upp við það þó að það falli nokkur tár.

Mér langar að benda þér á pistil um félagsfælni hér á síðunni

https://doktor.frettabladid.is/sjukdomur/felagsfaelni

Gangi þér vel