Erum að reyna að verða ólétt.

Góðan daginn.

Við höfum síðastliðna fjóra mánuði verið að reyna að verða ólétt, en ég hætti á pillunni fyrir um níu mánuðum. Ég hef fylgst náið með tíðarhringnum og notað einföld frjósemispróf.

Líklega eru fjórir mánuðir ekki langur tími. En hvað er eðlilegt að vera búinn að reyna lengi áður en maður spyr sig hvort eitthvað gæti amað að? Hvert er þá næsta skref og hvenær er eðlilegt að leita til læknis?

Öll ráð eru vel þegin!

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Það er algengast að miða við að par hafi stundað reglubundið, óvarið kynlíf í eitt ár eða meira án þess að getnaður verði áður en það telst eiga við ófrjósemi að stríða. Þó er talið rétt að bíða ekki lengur en 6 mánuði með að leita eftir aðstoð ef konan hefur náð 35 ára aldri, ef tíðarhringurinn er óreglulegur eða ef parið hefur einhverja sérstaka ástæðu til að ætla að frjósemin geti verið skert. Ég veit að þegar maður er kominn á þann stað að vera tilbúinn að eignast barn er auðvelt að verða talsvert gagntekinn af verkefninu en ég ráðlegg ykkur að reyna að vera sem mest afslöppuð yfir þessu og halda áfram að njóta þess að lifa og vera til og sjá hvað næstu mánuðir bera í skauti sér. Ef ekkert gerist er næsta skref að panta tíma hjá ART Medica en þar eru orsakir ófrjósemi skoðaðar og viðeigandi meðferð veitt.

Gangi ykkur vel