Ertar taugar

Sæl/ll!

Fyrir tveimur mánuðum byrjaði ég að finna fyrir eins konar doða sem kom yfir andlitið á mér og síðar fætur og hendur einnig. Ég fór til læknis og taldi hann ástæðuna vera álag og streita.
Ég er námsmaður í krefjandi námi og því get ég takmarkað minnkað álagið (hef þó tekið á nokkrum streitu þáttum). Ég hreyfi mig, borða hollt og mæti í jóga. Andlega líðan er betri en hún var en doðinn fer hvergi.

Ég hafði áhuga á að vita hvað valdi því að taugarnar haldist ertar (eða ertust í byrjun) og hvað ég geti gert til þess að láta ferlið ganga til baka. Mun þessu einhver tímann linna?

Bestu kveðjur

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Streita og álag getur birst í ýmsum myndum eins og þú hefur væntanlega lesið þér til um. Áhrif á ónæmiskerfið og taugakerfið eru velþekkt .  Einkennin sem þú lýsir geta einmitt verið streitutengd eða jafnvel orsökuð af vírus sem nær sér á strik vegna þess að ónæmiskerfið er ekki að virka sem skyldi. Það er afar misjafnt hversu hratt og vel þetta gengur yfir en flestir jafna sig að fullu ef þeir ná tökum á streitunni.

Ég hvet þig til þess að heyra aftur í lækninum ef þér finnst batinn ekki vera í samræmi við það sem þið rædduð, sérstaklega þar sem þetta er orðinn þó nokkur tími og þú ert búin að breyta því sem þú getur sjálf.

Gangi þér vel