Erfitt að tæma þvagblöðru

Sæl.
Ég er tæplega þrítug kona og hef undanfarna mánuði átt í erfiðleikum með að tæma þvagblöðruna. Ég finn að blaðran sé ekki tæmd þrátt fyrir að bunan sé hætt, og stundum koma nokkrir dropar til viðbótar ef ég hef tíma til að slaka verulega á en samt sem áður er alltaf eins og ég geti ekki skilað öllu. Þessu fylgja ekki verkir en óþægindi yfir þvagblöðrusvæðinu og mjög margar klósettferðir. Ég er mjög dugleg að drekka vatn og hef undanfarið aukið neyslu á grænu tei í þeirri von að geta átt auðveldara með að pissa en það virðist ekki virka. Það er kanski rétt að taka það fram að eftir að ég varð fullorðin kom í ljós að ég væri með tvöfalt safnkerfi. Annað nýrað er stærra og eitthvað snúið og úr hinu eru tveir leiðarar niður í blöðru. Einnig var talað um bakflæði upp í nýra sem útskýrði stöðugar nýrnasýkingar og eru nýrun örótt. Það skal líka taka fram að þvagið er ljóst og ekki er óeðlileg lykt.

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Þú þarft að leita til læknis með þetta vandamál og fá tekna þvagprufu til að útiloka þvagfærasýkingu. Þó þvagið sé ljóst og lyktalaust getur verið um sýkingu að ræða. Einkenni geta líka bent til veikleika í grindabotnsvöðvum eða truflun á starfsemi þvagblöðrunnar. Til að styrkja grindarbotnsvöðva eru til sérstakar æfingar en ef einhverja truflun er á starfsemi blöðrunar þarf stundum að beita lyfjagjöf eða annarri sértækari meðferð.

 

Gangi þér vel.