Er sjómaður og þarf að léttast

Spurning:

Ég er sjómaður og hef ekki mikinn tíma í landi og fæ ekki mikla hreyfingu.
Hvað er best að gera til að losna við 15-20 kg.

Kveðja

Svar:

Sæll,

Fyrst þú kemst ekki á líkamsræktarstöð eða reglulega út að skokka ráðlegg ég þér eftirfarandi. Til að léttast um 15-20 kg. þarftu að verða þér úti um einhver líkamsræktartól, handlóð og jafnvel þrekhjól. Margir eiga slíkt í geymslunni og ætti að vera hægt að ná sér í slíkt fyrir lítinn pening.

Einnig er hægt að kaupa líkamsræktarmyndbönd sem þú gætir farið eftir. Stundaðu æfingar, bæði styrktar og þol a.m.k. 3x í viku og fækkaðu aðeins hitaeiningum sem þú neytir með því að minnka sætinda- og fituneyslu. Þú ættir þá fljótt að sjá mun á þér og ná takmarki þínu eftir 15-20 vikur.

Gangi þér vel,
Kveðja,
Ágústa Johnson