Er í lagi að taka „pilluhlé“?

Spurning:

Halló!

Mig langar til að ráðfæra mig við þig. Ég hef verið á pillunni í tæp tvö ár. Áður en ég byrjaði á pillunni var ég alltaf mjög grönn en þegar ég byrjaði á pillunni fékk ég hálfgerðan bjúg eða öllu heldur vatnssöfnun. Ég hef farið til kvensjúkdómalæknis út af þessu og hann sagði að þetta væru bara hormónar í pillunni sem væru að valda þessari vatnssöfnun og ekkert væri við því að gera og að þar sem ég væri á Mercilon, sem á að vera mjög væg pilla, þýddi ekkert að skipta um pillu. Málið er sem sagt: Mig langar til þess að prófa að hætta á pillunni í einhvern tíma og athuga hvort þessi vatnssöfnun hverfur og hvort mér líður eitthvað betur þegar ég er ekki á pillunni. Það sem ég hins vegar er svo hrædd um er að ég „fitni“ bara aftur og jafnvel enn meir enn fyrr ef ég byrja aftur á pillunni eftir hlé. Er einhver möguleiki á því eða hef ég kannski bara gott af því að taka mér pásu?

Vonandi er þetta bréf nú ekki alltof ruglingslegt og ég vona að þú skiljir spurninguna mína!

Takk fyrir FRÁBÆRA vefsíðu!! Á henni er að finna allt sem hægt er að hugsa sér í sambandi við heilsuna!!

Með fyrirfram þökk!!

Svar:

Sæl.

Ef maður á að gæta fyllstu skynsemi er ekki ráðlegt að taka sér pilluhlé. Þetta með vökvasöfnunina er náttúrulega heldur hvimleitt. Þú gætir mögulega breytt um pillutegund, farið t.d. á pillu sem inniheldur bara progesteron og athugað hvort það breyti einhverju. Svo hefur mataræði töluvert að segja þegar vökvasöfnun á í hlut. Gervisykur, sykur, koffín, kolsýringur og fleira auka vökvasöfnun, en grænmeti (sér í lagi hrátt), ávextir og hreint vatn draga úr vökvasöfnun. Agúrkur, melónur, sellerí og brokkál eru sérstaklega vatnslosandi. En prófaðu að tala við einhvern annan kvensjúkdómalækni en þú ert vön – allir eiga rétt á að fá álit annars – og sjáðu hvort þú getur ekki leyst þetta með einhverjum öðrum hætti en að sleppa pillunni.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir