Er hægt að koma í veg fyrir skalla?

Spurning:

Ég er 17 ára strákur og í föðurætt minni hafa karlmenn fengið skalla mjögungir. Pabbi minn byrjaði að fá skalla uppúr tvítugu og var orðinn alsköllóttur 25 ára. Ég óttast mikið að innan nokkurra ára hendi hið sama mig. Því langar mig til að vita hvort hægt sé að gera eitthvað til að koma í veg fyrir skalla? Eru til einhver lyf og / eða meðferð?

Svar:

Lyfin Regaine (mínoxidíl) og Propecia (fínasteríð) eru notuð til að stöðva eða hægja á myndun karlmannaskalla. Regaine er til í áburði og hlaupi sem er borið á viðkomandi svæði í hársverðinum. Hárvöxtur getur farið að sjást eftir fjóra mánuði eða lengri tíma og er það einstaklingsbundið hvenær og hvort lyfið hefur tilætluð áhrif. Því miður nýtist lyfið aðeins minnihluta þeirra sjúklinga sem reyna það. Hitt lyfið, Propecia, er í töfluformi og er það notað til að stöðva þróunarferli karlmannaskalla hjá 18-41 árs gömlum karlmönnum. Venjulega þarf meðferð að standa í 3-6 mánuði áður en hártap minnkar eða stöðvast. Það þarf að halda meðferðinni áfram til að halda árangrinum. Ef meðferð er hætt gengur árangurinn til baka. Rannsóknir hafa sýnt að 1 mg á dag af fínasteríði eykur hárvöxt og kemur í veg fyrir áframhaldandi hárlos hjá karlmönnum með karlmannaskalla.

Regaine er hægt að kaupa án lyfseðils í apóteki en Propecia fæst aðeins gegn lyfseðli.

Talaðu við lækni eða lyfjafræðing til að fá frekari upplýsingar um hvað gæti hentað þér.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur