Er flúor nauðsynlegt fyrir börn?

Spurning:

Góðan daginn.

Ég var að lesa greinina um flúor fyrir ársgamalt barn. Ég á tveggja ára barn og hef samkvæmt ráði úr mæðraskoðun gefið því eina flúortöflu á dag í tæpt ár, auk þess að bursta tennurnar með barnatannkremi sem inniheldur flúor. Er samkvæmt þínu áliti ekki skynsamlegt að vera að gefa flúortöfluna einnig og myndurðu ráðleggja mér að hætta því?

Með kveðju.

Svar:

Komið hefur í ljós að gagnsemi flúors í töfluformi er nokkru minni en í fyrstu var ætlað. Talið er að í flestum tilfellum bæti notkun flúortaflna litlu við þá vörn gegn tannátu sem rétt notkun flúortannkrems veitir. Af þeim sökum er vafasamt að flúorauki í töfluformi geti talist gagnlegur öllum almenningi. Fyrir börn í ýmsum áhættuhópum gæti þó verið þörf flúorauka í töfluformi. Á það einkum við um fötluð börn og langsjúk sem þarfnast lyfja er hafa skaðleg áhrif á tennur eða eiga erfitt með munnhirðu um lengri eða skemmri tíma, börn með tannréttingatæki og börn með mikla tannátuvirkni svo dæmi séu nefnd. Fyrir börn í sérstakri áhættu mættu daglegir flúorskammtar vera eftirfarandi:

Aldurmg F-Töflufjöldi1/2 árs til 3 ára0,25 1 tafla 4 ára til 6 ára0,502 töflur7 ára og eldri1,004 töflur

Til þess að flúor komi tönnum að sem bestu gagni þurfa staðbundin áhrif þess á tennur að fá notið sín. Því þurfa töflurnar t.d. að fá að leysast hægt upp í munninum. Flúortöflur sem eru gleyptar eða muldar út í mat eru tönnum nánast gagnslausar. Af þessum sökum er þörf á flúor í formi sem er heppilegra til þess að láta renna í munni en þær töflur sem nú eru á boðstólum. Hér mætti benda á tyggigúmmí og sogtöflur sem innihalda flúor. Á myndunarskeiðinu stafar glerungi tanna ávallt einhver hætta af öllum flúorinntökum. Glerungur fullorðinsframtanna er vart úr hættu fyrr en við fjögurra ára aldurinn og glerungsmyndun annarra fullorðinstanna lýkur ekki fyrr en um sex ára aldur. Fyrir sex ára aldur ætti því aldrei samtímis að gefa flúortöflur og bursta með flúortannkremi heldur dreifa á daginn og láta líða nokkrar klukkustundir á milli. Gangi þér vel að bursta tennur barnsins þíns með flúortannkremi og hafi tannlæknir staðfest að lokinni skoðun að barnið þitt sé laust við tannskemmdir ættir þú að geta sleppt flúortöflugjöfinni ykkur að meinalausu.

Ólafur Höskuldsson, séfræðingur í barnatannlækningum