Er ég ímyndunarveikur?

Daginn,

Ég hef í um 10-12 ár verið með doða í vinstra anndliti. Þetta byrjaði með smá doða efst uppi á höfðinu, bara smá blettur. Síðan þá hefur doðinn aukist og færst hægt í aukana. Nú er svo komið að ég finn stanslaust fyrir doða í öllu vinstra andliti alveg niður í háls (aðalega við kinn og eyra og undir kjálkabeini.). Einnig finnst mér doðinn vera kominn í vinstri hönd og fót.

Ofan á þetta allt er ég stundum að fá óþægindi í brjósti. Vill ekki meina að þetta sé verkur. Meira svona eins og hjartaflökt, hjartað missi úr slag.

Ég hef farið í einhverja skönnun fyrir mörgum árum þar sem ekkert athugavert kom í ljós en síðan hef ég farið nokkrum sinnum til heimilislækna en er nú kominn á endastöð hvað ég á að gera. Ég sef illa, er alltaf stressaður og veit ekki hvað til bragðs á að taka þvi enginn svör fæ ég frá heimilislæknunum.

Kærar kveðjur.

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Doði í andliti er eitt af þessum einkennum sem getur reynst erfitt að finna örsökina. Ýmsir sjúkdómar í taugum geta valdið þessum einkennum, til eru vírusar sem geta valdið dofa tilfinningu og jafnvel tímabundinni lömun og svo er vel þekkt að streita og álag getur framkallað þessi einkenni. Einkennin frá brjósti gætu stutt þá kenningu að um álags eða streitueinkenni sé um að ræða.

Ef þér finnst heimilislæknirinn ekki ná að skoða þetta eða koma með fullnægjandi skýringu þá gætir þú athugað með að panta tíma hjá taugasérfræðingi með það fyrir augum að útiloka hvort um taugasjúkdóm sé að ræða.

Gangi þér vel