Er að fara á árshátíð, er í lagi að taka inn megrunartöflur?

Spurning:

Sæl.

Þannig er mál með vexti að ég er of þung miðað við hæð. Mér var svo boðið á árshátíð eftir mánuð og það er stuttur fyrirvari en mig langar að vita hvort að þessar töflur sem að ég var að lesa um Orlistat xenical geti eitthvað hjálpað mér að léttast á svo skömmum tíma? Ef svo er hvað mörg kíló getur maður losnað við á ekki lengri tíma en mánuði?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Þú skalt alls ekki reyna að fara í strangan megrunarkúr og reyna að losna við mörg kíló á skömmum tíma. Það verður til þess að þú hægir á grunnbrennslu líkamans og missir e.t.v. vöðvamassa og það sem þú uppskerð er e.t.v. færri kíló í smá tíma en svo hlaðast þau á þig fljótt aftur og gott betur. 1/2 kg er raunhæft fitutap á viku. Ég myndi þó segja að meira vit sé í að stefna á að tapa ekki meira en tveim til þrem kílóum á mánuði, þannig eru mestar líkur á að árangurinn sé varanlegur. Reglubundin hreyfing og skynsamlegt fæðuval er eina leiðin til að komast í fínt form og halda því til frambúðar. Það verða fleiri árshátíðir og aðrar hátíðir og ég ráðlegg þér að hafa ekki stórar áhyggjur af þessari næstu árshátíð heldur taka málið af skynsemi og byrja strax í dag á að breyta um lífsstíl varanlega, byrja að hreyfa þig 4-5x í viku og gera skynsamlegar breytingar á mataræði þínu. Trúðu mér, þetta er eina leiðin og hún virkar vel. Tíminn flýgur og áður en þú veist af ertu búin að losna við aukakílóin og með breyttum venjum er auðvelt að halda árangrinum. Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari