Endalausir verkir, hvað er til ráða?

Sæl/Sæll
Ég er stelpa sem er nýorðin 18 ára og er búin að vera með stöðugan hausverk í 18 mánuði. Ég er að gefast upp. Ég hef fengið marga aðra verki og þá oft haldið að það tengist hausverknum en hef aldrei fengið staðfestingu á því. Meðal verkja/einkenna sem ég hef fengið eru ógleði, eyrnaverkir (fékk eyrnabólgu en verkirnir hafa stundum verið að koma eftir það), verkir í kjálkum, beinverkir, verkir fyrir brjósti sem leiða oft út í hendur, svimi, fótapirringur, stanslaus þreyta og orkuleysi og svo miklir magaverkir sem hafa reyndar fylgt mér frá því að ég var ung sem og fleiri verkir.
Ég hef prófað marga hluti og farið til margra lækna, meðal annars: 8x til heimilislæknis, 2x til tannlæknis, 2x til eyrnalæknis, sjúkraþjálfari, kírópraktor, næringarfræðingur, ofnæmislæknir, farið í blóðprufu, þvagprufu og blóðþrýstingsmælingar, endajaxlataka og prófað ýmis konar lyf og þannig heldur listinn áfram.
Mín spurning er sú, er eitthvað sem þér dettur í hug sem ég gæti prófað? Ég er uppiskroppa með hugmyndir og nenni þessu ekki lengur.
Takk!

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Sum vandamál er erfitt að greina og þarf læknirinn stundum að senda fólk í margar rannsóknir áður en lausnin finnst, sérstakalega ef einkennin eru ekki „alveg eftir bókinni“. Ég hvet þig því til þess að halda áfram að tala við heimilislækninn þinn og láta hann/hana fylgjast vel með öllu sem þú ert búin að prufa og reyna að halda skrá yfir þessa vanlíðan, t.d. dagsetningar, hve oft á dag, hvar og hve mikill verkur á skalanum 1-10. Með því að vinna saman í leitinni finnst orsökin vonandi og  þegar orsökin finnst er hægt að fara að vinna að lausn.

Gangi þér vel