Eitthvað sem lokast í hálsinum.

Sæl.

Nú hef ég þrisvar sinnum lent í því að geta ekki dregið að mér andann og verið hrædd um að það geti orðið minn dauðdagi.

 Fyrst gerðist það þegar ég var í sundi með dóttur minni. Ég fékk líklegast dropa í hálsinn, svo mér svelgdist á og hóstaði en gat svo ekki dregið að mér andann eftir að hafa hóstað. Hálsinn var lokaður fyrir utan örlítla rifu sem leyfði mér að draga inn loft eins og í gegnum örmjótt rör og ég gaf frá mér hræðileg hljóð, svo það fór ekki á milli mála að fólk hélt að ég væri að kafna. Starfsmaður kom og vildi hjálpa mér, ég vissi ekki hvað var að, bara að ég gat ekki andað. Hún reyndi að gera Heimlich en það hjálpaði auðvitað ekkert, af því að það stóð ekkert fast í hálsinum, en það skaðaði heldur ekkert, því hún gerði ekkert svo fast. Ég veit ekki hversu langan tíma þetta tók en það var eins og heil eilífð. (Kannski um 5 mínútur). Dóttir mín þurfti að útskýra fyrir starfsmanninum að ég væri ekki neitt skrýtin og að ég gæti venjulega andað. Svo fóru þau með mig inn í herbergi starfsfólks og það var kannski aðeins kaldara þar, en ég veit ekki hvað gerðist, ég fann að hálsinn opnaðist smám saman meira og meira og loks gat ég andað venjulega. Ég var alveg með meðvitund og allt og frekar róleg að mér fannst en eftir þetta var ég mjög þreytt í brjóstkassanum eftir að hafa reynt mikið að fá loft inn í líkamann. 

Í annað skiptið sem þetta gerðist var ég heima og hafði fengið mér appelsínusafa og mér svelgdist á. Ég hóstaði og hóstaði og gat svo ekki dregið andann að mér, nema aftur eins og í gegnum örmjótt rör. Dóttir mín var einnig með mér og stelpa sem við leigðum með. Dóttir mín sagði mér að varirnar mínar væru orðnar bláar. Ég reyndi bara að ná stjórn á einhverjum vöðva í hálsinum og slaka á en gat engu stjórnað. Hugsaði hvort ég ætti að gera gat á hálsinn til að fá loft eða hvað ég ætti að gera. Dóttir mín og meðleigjandi ákváðu að láta nágrannann vita og önnur þeirra hljóp út og náði í nágrannann. Hann kom og um það leyti sem hann kom var farið að slakna aðeins á hálsvöðvanum sem hafði einhvers konar krampa, ég veit ekki hvað þetta er, og ég fann að ég myndi lifa þetta af. Það er frekar vandræðalegt að gefa frá sér þessi hræðilegu hljóð og vera við það að kafna eftir ekki neitt, svo það var yndislegt að nágranninn kom með maska í andlitinum sem konan hans hafði einmitt fengið leyfi til að setja á hann þetta kvöld 😉 Einnig var reynt að blása ofan í mig en það var algjörlega ómögulegt! Þetta stóð einnig yfir í örugglega 5 mínútur, kannski jafnvel lengur. 

Svo var það núna 6. mars að ég var að keyra heim af ráðstefnu í Kaupmannahöfn og var með þremur hjúkrunarkonum í bíl. Það var góð tilfinning. Ég var að borða gulrót og fæ líklegast munnvatnsdropa ofan í hálsinn sem gerir það að verkum að mér svelgist á. Ég hósta aðeins en finn svo og heyri að ég get ekki dregið að mér andann. Þær eru skelfingu lostnar og stoppa bílinn og taka mig út og ein gerir líka Heimlich á mér, líka ekkert fast, svo það skaðaði ekkert. En þegar ég kom út í ferska loftið fór ég að geta andað aftur smám saman. Það var stysta kastið sem ég hef fengið en hjúkrunarkonurnar voru mjög hræddar um mig og sögðu mér að tala við háls-, nef- og eyrnalækni. Þetta kast var kannski um 2-3 mínútur. Ég er samt bara að giska.

Núna er ég hrædd, ég er hrædd við að fara í sundlaug eða vatn ef mér skildi svelgjast á, því að þá gæti ég auðveldlega drukknað, bara vegna þess að hálsinn lokast. Annars elska ég vatn. Ég er líka hrædd um að vera ein og bara kafna ein heima einn daginn. 

Hvað á ég að gera? Hvert á ég að leita? Hvað getur þetta verið og hvað á ég að gera ef ég fæ svona kast aftur?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Skiljanlega eru þetta mjög óþægileg atvik sem sitja í þér og gera þig hrædda. Það eitt og sér, hræðsla, getur haft áhrif á háls og kok. Uppsöfnuð streita, kvíði og vanlíðan getur „safnast“ saman í hálsinum og við það eitt að dropi hrökkvi ofan í þig getur það framkallað herping því þú dettur í þann fasa að upplifa það að þú kafnir. Fyrir utan það hvað andleg hliðin hefur mikil áhrif á háls og kok,  hvet ég  þig, líkt og hjúkrunarfræðingarnir sem þú varst með, að leita til háls, nef og eyrnalæknis. Það er mikilvægt að kanna hvort það sé hreinlega einhver fyrirstaða sem veldur þessum óþægilegu uppákomum.

Gangi þér sem allra best