Eistu

Hér er einn 11 að verða 12 ára drengur sem ekki hefur fengið eistun niður. Er ástæða til að hafa áhyggjur eða er þetta allt saman eðlilegt.
kær kveðja

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Eistun myndast í fósturlífi og eru fyrst staðsett í kviðarholinu í hæð við nýru. Á seinni hluta meðgöngu fara þau að færast niður á við og eru í flestum tilfellum komin niður í pung við fæðingu. Eftir fæðingu og í ungbarnavernd er venjan að vel sé fylgst með því að þetta ferli gangi eðlilega fyrir sig og brugðist við ef það gerist ekki. Mér finnst því ólíklegt að drengurinn þinn hafi farið í gegnum ungbarnvernd og skólaskoðnir til 11 ára aldurs án þess að þetta hafi verið uppgötvað eða rætt því ráðlagt er að meðhöndla launeista mun fyrr.

Það er hinsvegar vel þekkt fyrirbæri að eistu sem gengin eru niður í pung geti „hoppað“ tímabundið til baka t.d. vegna breytinga á hitastigi eða við hræðslu/geðshræringu. Þá eru eistun yfirleitt alveg eðlileg og í flestum tilfellum hættir þetta þegar kynþroska er náð. Mikilvægt er hins vegar að þið látið athuga hvað er í gangi og því ráðlegg ég þér að panta tíma hjá þvagfæraskurðlækni sem fyrst.

Gangi ykkur vel