Einkenni blóðtappa í fæti,verkir frá stórutá og uppeftir fæti?

Blóðtappi hvernig einkenni getur maður fengið við blóðtappa í fæti?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Blóðtappar í bláæðum myndast oft hægt með vaxandi bólgum, sársauka og litabreytingum á fæti, en þessi einkenni líkjast oft einkennum sýkingar eða netjubólgu. Blóðtappar í slagæðum myndast aftur á móti skyndilega þegar hörsl í æðaveggjum losnar og stíflar æðar. Við það tapast tilfinning og hreyfigeta í fæti, fóturinn hvítnar og verður aumur og sjúklingur getur orðið mjög kvalinn. Ef þetta gerist í mikilvægum slagæðum, til dæmis þeim er liggja til hjarta eða heila, getur það valdið hjartaáfalli eða heilablóðfalli.

Helsta ástæða blóðtappamyndunar í bláæðum er hreyfingarleysi, til dæmis á löngum ferðalögum og hjá rúmliggjandi fólki. Erfðagalli í einhverjum hinna fjölmörgu þátta blóðstorkuferlisins getur einnig valdið því að sumir einstaklingar eru sérstaklega viðkvæmir fyrir blóðtappamyndun. Almennir áhættuþættir blóðtappa eru hár blóðþrýstingur, hátt kólesteról, sykursýki og reikingar. Fjölskyldusaga skiptir einnig miklu máli. Ófrískar konur eru svo í aukinni áhættu á að fá blóðtappa í fætur.

Mér þykir líklegra að verkir sem byrja í stórutá og leita upp séu tengdir stoðkerfinu en láttu endilega skoða fótinn, líka bara til að útiloka sýkingu.

Gangi þér vel

Thelma Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur