Eggjahvíta og lágur blóðþrýstingur

Spurning:

Sæl.

Ég ætlaði að athuga hvort þú gætir svarað mér því hvort það sé eitthvað til þess að hafa áhyggjur af þegar maður er gengin tuttugu og eina viku og er með blóðþrýsting 100/60 og of mikið prótín í þvagi? Ég er að spyrja fyrir mágkonu mína sem býr í útlöndum og finnst hún ekki vera nógu örugg með það sem læknarnir segja henni.

Með von um svar.

Svar:

Sæl.

Þessi blóðþrýstingur, þ.e. 100/60 er alveg eðlilegur. Hins vegar er ekki eðlilegt að vera með eggjahvítu í þvagi og þetta snemma í meðgöngu bendir það oftast til þvagfærasýkingar. Eggjahvíta í þvagi getur líka verið merki um meðgöngueitrun en hún kemur yfirleitt ekki þetta snemma í meðgöngu og henni fylgir oftast hækkaður blóðþrýstingur og bjúgur. Hún mágkona þín ætti að fá dálítið betri útskýringar og kanna hvort hún getur ekki fengið túlk með sér í skoðun til læknisins ef hún á erfitt með að skilja hann.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir