Draumar

Góðan dag.

Ég veit ekki alveg hvernig ég á að útskýra á skiljanlegan hátt hvað ég er að upplifa þar sem ég varla skil það sjálf.

Ég er og hef verið síðan ég man eftir mér að dreyma í hvert skipti sem ég festi svefn. Ég man hvern einasta draum einsog ég hafi í alvöru upplifað hann. Minnið mitt er uppfullt af ljótum og leiðinlegum hlutum sem ég hef „séð“, orðið vitni að og upplifað bara í draumum. Sumt situr illa í mér.

Ég fæ ekki bara ljóta drauma en þetta eru oft einsog heilu spennu, drama eða hryllings bíómyndir og mér líður einsog ég lifi öðru lífi á nóttunni eða já þegar ég sef og ég er oft andlega þreytt og sjokkeruð þegar ég vakna. Ég á líka ansi oft erfitt með að átta mig á hvort sumt gerðist í alvöru eða draumi.

Ég hef nokkrum sinnum á æfinni tekið tímabil þar sem ég hreinlega þori ekki að sofna því ég bara treysti mér ekki í nóttina og það sem kemur með draumunum. Mig er t.d. farið að kvíða núna fyrir að fara að sofa öll kvöld.

Afþví að þetta hefur verið frá því ég man eftir mér þá get ég ekki tengt þetta beint við neitt ákveðið sem er að gerast í daglegu lífi þótt svo að ég tengi stundum munstur draums við tilfinningar sem ég er að vinna með á daginn í ákveðinn tíma.

Ég veit ekki hvort það hefur eitthvað segja en ég er með maniu og fer í geðrof við ákveðnar aðstæður og hef prófað ýmis lyf við því á síðustu 5 árum og er núna á Orfiril og Solian sem henta mér ágætlega enn sem komið er… en aldrei hætta þessir raunverulegu draumar.

Er til einhver skýring á þessu og er eitthvað sem ég get gert til þess að fá bara frið á nóttunni?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Draumar eru taldir eiga sér stað á því stigi svefns sem nefnist REM-svefn (e. rapid eye movements). Þess háttar svefn einkennist af hröðum og óreglulegum heilabylgjum, algjörri vöðvaslökun og greinilegum, tiltölulega hröðum augnhreyfingum. REM-stig svefns kemur fyrir með reglulegu millibili á um 90 mínútna fresti á næturnar og stendur mislengi, allt frá nokkrum mínútum upp í hálftíma. Þessi draumskeið eru styst í byrjun nætur en lengjast er líður á nóttina. Ef fólk vaknar eftir lok slíks draumskeiðs getur það venjulega rifjað upp söguþráð draums. Að loknu REM-stigi svefns  losnar um svefninn og hann verður ekki eins djúpur. Þá eiga sumir það til að vakna alveg. Lyf sem draga úr REM-stigi svefns eða draumsvefni eru til en þú þyrftir að ræða það vel við þinn meðhöndlandi lækni með tilliti til þinna undirliggjandi sjúkdóma og lyfja.

Þú getur lesið þér betur til um svefn og svefntruflanir á Persona.is