Doði eða náladofi í hendi og handlegg

Hef verið með náladofa í hægri handlegg frá öxl og fram í fingur.
Fyrir c.a. Þrem vikum fór ég að finna fyrir þessu. Þetta virðist vegra að ágerast. Hvað veldur og hvað er til ráða?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er ótrúlega margt og misalvarlegt sem getur orsakað doða í höndum og fram í fingur. Þetta getur komið þegar þrýstingur myndast á taugar, t.d. ef þú hefur sofið á hendinni um nóttina eða sofið með hendur upp fyrir höfuð. Þrýstingurinn getur líka verið t.d. út frá vöðvabólgu eða afleiðing áverka. Einnig getur verið um að ræða einhver truflun á taugastarfsemi vegna hinna ýmsu taugasjúkdóma. Ef þetta er að koma án eðlilegrar útskýringar, ef dofinn er viðvarandi og veldur því að þú getir ekki notað hendina, ef þetta gengur ekki tilbaka eða ef þetta er að gerast endurtekið, þá mæli ég með að þú leitir til heimilislæknis. Sá læknir metur það síðan hvort þörf sé á frekari skoðun hjá sérfræðilækni.

Gangi þér vel,

Særún Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur