Decutan og áfengi

Nú var ég að byrja á Decutan-kúr (Isotretinoin) til þess að koma húðinni minni í lag fyrir fullt og allt. Húðlæknirinn minn minntist á að það væri ekki æskilegt að neyta áfengis á meðan meðferðinni stendur, sem er u.þ.b. 5 mánuðir. Hann sagði að 1-2 bjórar væru í lagi en fyllerí væri ekki ráðlagt. Það var þó ekkert minnst á áfengi í bæklingnum sem fylgdi með lyfinu.
Ég drekk ekki mikið þannig þetta er ekki vandamál fyrir mig, en ég hafði þó ákveðið að detta einu sinni í það í sumar og drekka þá tölvert meira en bara 2 bjóra.
Ég veit að þetta tengist lifrinni á einhvern hátt og að það gætu verið einhverjar aukaverkanir. Svo ég spyr: hversu slæmt er að drekka á meðan maður er á Decutan og er einhver leið að minnka áhættuna (sleppa að taka lyfið í 2 vikur fyrir eða eitthvað svipað)?

Ég er 19 ára ef það breytir einhverju.

Takk fyrir!

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Það eru gild rök fyrir því að læknirinn ráðleggur þér þetta.   Það er rétt hjá þér að menn geta lent í truflun á lifrarstarfssemi  samfara töku á lyfinu og áfengisneyslu  og sú hætta eykst með aukinni áfengisneyslu. Þegar talað er um truflun á lifrasstarfssemi er  ekki hægt að spá fyrir um hversu alvarleg hún verður og að hversu miklu leyti hún gengur tilbaka og þá geta menn setið uppi með varanlegan skaða á lifrinni og mega til dæmis  aldrei drekka áfengi. Eflaust eru einhverjir til sem hafa drukkið töluvert og verið á lyfinu og sloppið vel frá því en það er óþarfa áhætta að taka. Það er ekki mælt með því að gera hlé á meðferðinni vegna þess að þá getur þú þurft að byrja alla meðferðina upp á nýtt svo besta ráðið er að sleppa því að drekka, heyra aftur í lækninum eða  mögulega seinka meðferðinni allri.

Gangi þér vel