Brúnkukrem

Er brúnkukrem óhollt fyrir líkamann/húðina?

Sæl (l) og takk fyrir fyrirspurnina.

Enn sem komið er virðist ekkert benda til þess að efnið sé skaðlegt og er það því mikilvægur valkostur fyrir þá sem vilja hafa brúnan húðlit.

Brúnkukrem og brúnkuvökvar innihalda efni sem gerir ysta lag húðarinnar brúnt. Efnið heitir di-hydroxyacetone (DHA).

Þau brúnkukrem sem innihalda DHA verka þannig að DHA gengur í efnasamband við ákveðnar amínósýrur sem er að finna í ríkum mæli í efstu lögum húðarinnar. Við efnahvarfið myndast brún litarefni sem kölluð hafa verið „melanoidin“.

Ókostir eru að stundum verður húðin tímabundið flekkótt og í sumum tilfellum getur myndast ofnæmi fyrir efninu.

Liturinn sem verður á húðinni eftir notkun brúnkukrema er alveg óskyldur brúna litnum sem verður eftir sólböð.

Hann getur enst í nokkra daga en stundum lengur.

Gangi þér vel,

Svanbjörg Pálsdóttir

hjúkrunarfræðingur