Bronkítis

Ég hef verið með kvef í sirka 10 daga og hefur það farið sífellt versnandi. Fyrir 2 dögum síðan byrjaði ég svo að verða hás og fann að það hrygldi í mér þegar að ég andaði. Í gær lét ég svo verða af því að kíkja á vaktina þar sem að röddin var svo gott sem farin, það hrygldi talsvert í mér og ég fékk regluleg hóstaköst þar sem ég hóstaði þar til ég kúgaðist. Á vaktinni var ég hlustaður og mér tilkynnt að ég væri með Bronkítis (hún kallaði það lika berklabólgu) og mér var ávísað Ventolin pústi og sýklalyfinu Amoxin. Nú hef ég tekið þessi lyf samviskusamlega og finn engan mun (kannski eðlilegt þar sem um mjög stuttan tíma er að ræða) en þegar að ég les um Bronkítis á netinu segja allar heimildir að ekki eigi að notast við sýklalyf. Er ég að taka sýklalyf að ósekju eða geta þau haft einhver áhrif? og hversu lengi getur svona raddleysi varað (ég er algjörlega raddlaus í dag)?

Sæl/ og takk fyrir fyrirspurnina

Berkjubólga getur verið að völdum veira eða baktería og ef einkennin eru þannig að grunur leiki á að um bakteríusýkingu sé að ræða þá eru sýklalyf notuð. Það er ekki alltaf auðvelt að greina þarna á milli og mögulega er um veirusýkingu að ræða í þínu tilfelli sem sýklalyfin virka ekki á. Ég ráðlegg þér samt að halda áfram þeirri meðferð sem læknirinn mælti með, því væntanlega hefur hann séð eitthvað í þinni líðan sem benti til bakteríusýkingar. Þú skalt passa að drekka nægan vökva en það  þynnir slímið og auðveldar þér að losa það upp með hóstanum.

Það er erfitt að segja til um hversu langan tíma það tekur fyrir þig að fá röddina aftur en það fer eftir bataferlinu. Um leið og önnur einkenni fara að ganga til baka lagast röddin. Það versta ætti að ganga yfir á nokkrum dögum en í sumum tilfellum getur það tekið nokkrar vikur að ná fullum bata eftir slæma berkjubólgu

Gangi þér vel og góðan bata