Brjóstagjöf: Má ég borða hunang?

Spurning:

Nú er vitað að ungabörn mega ekki fá hunang, en hvernig snýr þetta að brjóstagjöf? Er óhætt að borða hunang með barn á brjósti og hefur það einhver áhrif á barnið?

Svar:

Sæl.

Rétt er það – börnum undir eins árs aldri ætti ekki að gefa hunang. Það er vegna þess að hunang er náttúruafurð og í því geta leynst gró frá bakteríunni Clostridium Botulinum sem veldur lömun og stundum dauða. Í þörmum ungbarna eru æskileg skilyrði fyrir bakteríugróin að lifna við og taka til starfa. Það gerist ekki hjá heilbrigðu, fullorðnu fólki. Þar sem bakteríugróin meltast í þörmunum er móður með barn á brjósti óhætt að borða hunang án þess að barninu verði meint af.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir