Brjóst!

Mig langar að forvitnast um hvað er hægt að gera þegar brjóst eru misstór (uþb skálarstærð a milli líklegast) annað en að setja púða?

Það er eins og það vanti holhandarmegin brjóstavef og/eða fituvef. Þetta hefur alltaf verið en jókst við að stærra brjóstið slitnaði meira en hitt (á þrjú börn sem voru á brjósti). Ef ég er hrikalega grönn þá minnkar munurinn smávegis (held ég) en eins og núna þá er ég pínu mjúk en ekki beinlínis feit og þessi munur er að gera mig ferlega pirraða. Er ekki beint brjóstastór en hávaxinn, nota haldara í stærð 80 b núna en það er eiginlega ekki að passa neinstaðar (mjög erfitt að finna eitthvað sem er nothæft og vil ekki nota púða öðru megin því þá hugsa ég ekki um annað því maður finnur svo vel fyrir því).

Mér líst eiginlega ekki á að fá misstóra silikonpúða, finnst eins og það væru mistök fyrir utan að ég er frekar smeik við það að fá svona aukahlut inn í líkamann.

Er hægt að fylla minna brjóstið aðeins með fituvef án þess að skera mikið í líkamann?

Myndi það kannski líta afkárlega út þó þau væru þó komin í sömu skálarstærð? ég meina myndi minna brjóstið kannski standa út í loftið meðan hitt lafir eða eitthvað svoleiðis 🙂

Ef einhverskonar vefja/fituflutningur er mögulegur, endist það eitthvað ?

Það væri draumur í dós að geta keypt sér brjóstarhaldara sem passar og ég er orðin algjörlega þreytt á þessu. Ég er komin á miðjan aldur og finnst eins og ég ætti skilið að klæða mig eins og mig langar án þess að líða illa yfir þessu eða að vera alltaf að reyna fela þetta með dökkum fötum og öðru. Ég held hreinlega að oft hafi þetta heilmikil áhrif á andlega líðan svo þetta er ekki einungis hégómi 🙂

Að lokum: er einhver læknir með meiri reynslu en aðrir í öðrum lausnum en silikonpúðum og hvað er meðalverð á fyrsta viðtalstíma?

Með fyrirfram þökk fyrir góð og nákvæm svör 🙂

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Samkvæmt lýtalækni eru tveir kostir til að jafna brjóstastærð. Annar er að fylla með  silikon í minna brjóstið  og hinn er að  minnka stærra brjóstið. Fylling með fituvef er lítið notuð.  Ég ráðlegg þér að fá tíma á Landspítalanum á lýtalækningadeildinni til að fá mat sérfræðings þar.  Viðtalstími hjá lýtalækni hleypur á 6000-10.000 krónum.

 

Gangi þér vel.