Bólur á meðgöngu

Spurning:

Ég er 21 árs og er ólétt en er búin að vera með slæma húð í andliti alveg síðan ég hætti á pillunni. Ég hef varla fengið bólur að neinu ráði áður þannig að þetta er alveg að gera mig brjálaða. Mér hefur verið sagt að þetta séu bara hormónabreytingar og þetta fari bráðlega, en ég er að verða nokkuð óróleg því þetta virðist smita nokkuð hratt út frá sér. Er þetta eðlilegt? Hvað get ég gert?

Svar:

Sæl.

Það er ekkert einsdæmi að verða slæm af bólum á meðgöngunni og stafar það m.a. af hormónaáhrifum og aukinni myndun á svita og húðfitu. Þú getur átt von á að vera svona fram yfir fæðingu barnsins og e.t.v. ekki margt sem þú getur gert til að uppræta bólurnar þar sem þau lyf sem notuð eru við mikilli bólumyndun geta skaðað fóstrið. Það sem þú getur gert er að gæta hreinlætis, þvo þér tvisvar daglega með vatni og mildu hreinsikremi eða sápu, nota rakakrem sem ekki lokar húðinni, skipta oft um sængurföt, sérstaklega koddaverið, forðast reyk og óhreint loft, gæta hollustu í mataræði og drekka mikið af hreinu vatni. Oftast hættir bólumyndunin eftir að barnið er fætt þótt stundum taki það dálítinn tíma að ná sér alveg. Þú hefur þá möguleika að leita til húðsjúkdómalæknis og fá viðeigandi meðferð þegar barnið er hætt á brjósti.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir